Listin og mannhelgismálið Guðmundur Andri Thorsson skrifar 23. janúar 2017 00:00 Á dögunum var haldinn fundur í HÍ um mörkin á notkun rithöfunda á raunverulegum atvikum og örlögum annars fólks í verkum sínum. Þetta er flókið mál með margar hliðar, og var mjög vel reifað af háskólafólkinu eins og má sjá á Facebooksíðu Hugvísindasviðs HÍ.Návígi og skávígi Sjálfur hef ég ekki eindregnar skoðanir á þessu, eiginlega frekar tví- eða þrídregnar, eða kannski öllu heldur ódregnar. Við búum í litlu samfélagi – eins og við finnum öll sterkt um þessar mundir. Við þurfum að sýna hvert öðru tillitssemi en sú krafa getur stangast á við það hlutverk listamanna að gera hið kunnuglega annarlegt – og öfugt. Þessi árekstur getur verið óhjákvæmilegur, oft sársaukafullur – en það er misskilningur að það verði sjálfkrafa til listaverk um leið og hann á sér stað. Það er ekkert listrænt í sjálfu sér við að hneyksla og særa. Listamenn eru ekki hafnir yfir siðamörk þótt þeir starfi oft á þeim mörkum. Raunar mætti segja að það leggi fólki sérstakar skyldur á herðar að stunda listir. Áhrifaríkt listaverk opnar sérstakan aðgang að hugskoti njótenda og listamenn njóta sérstakra tjáningarfríðinda í samfélaginu. En þetta skáldaleyfi geta listamenn ekki umgengist af léttúð eða án þess að mega vænta þess að fólk bregðist við. Návígið hér og skávígið, oft þvert á stéttir og landshluta, auðveldar rithöfundum aðgang að ómótstæðilegu efni – en gerir þeim jafnframt erfiðara fyrir en ella: að þurfa að standa frammi fyrir einhverjum sem segir: Var nú ekki óþarfi að vera að skrifa um þetta? Og þá þarf að vera hægt að svara: Nei, þess þurfti. Við þekkjum það mörg sem fáumst við skriftir að hitta fólk sem vill segja sögu sína og býður manni ævi sína til frjálsra afnota: „Þú mátt nota þetta eins og þú vilt.“ Við þekkjum það líka að lesa um fólk í skáldsögu og hitta það svo kannski nokkru síðar á förnum vegi – mörkin milli skáldskapar og veruleika eru hér stundum óljósari en víða annars staðar. Íslendingar hafa löngum haft þörf fyrir að skoða líf sitt sem texta. Það er ein skýringin á þeirri fögru hefð sem hér ríkir í minningagreinaskrifum. Okkur hættir hins vegar til að einfalda samband skáldskapar og raunveru. Við gerum fyrirmyndaleit of hátt undir höfði og gleymum að lesa skáldverk á eigin forsendum: ekki síst í verkum Halldórs Laxness, sem gerði miklu meira af því að semja upp úr sér en við gerum okkur stundum grein fyrir. Eins og miklir skipstjórar átti hann sér draumkonu sem vísaði honum á auðugri mið í sköpunarhafinu en aðrir áttu aðgang að. Meira að segja þegar hann notfærði sér raunverulegt fólk – til dæmis í Íslandsklukkunni og Atómstöðinni – skapaði hann úr því eitthvað alveg nýtt og kiljanskt.Sæmd Sumir höfundar hafa ekki hikað við að taka traustataki „opinbera persónu“ og ráðskast með í eigin texta. Við sem lesum vitum að þetta eru ekki heimildir um viðkomandi raunpersónur, þær eru þarna ekki í sínu lífi, hreyfa sig í bókinni eftir öðrum lögmálum, inni í öðru heilabúi en sínu eigin, eru holdgervingar hugmynda. Kannski ekki ólíkt því að vera skrumskældur í skrípamynd eða áramótaskaupi. Örugglega hvimleitt en fátt við því að gera. Fólk á samt rétt á sinni sæmd – jafnvel út yfir gröf og dauða. Hver manneskja hefur um sig og líf sitt eitthvað sem kalla má „mannhelgi“ sem alls konar óskráðar en eindregnar umgengnisreglur kenna okkur að maður eigi ekki að vaða inn í. En rithöfundar hafa stundað ólöglegar veiðar í mannhelgi annarra frá elstu tíð. Hallgerður Höskuldsdóttir hefur um aldir átt um sárt að binda af völdum hins óþekkta höfundar Njálu sem í lýsingum sínum á henni fer yfir öll mörk sanngirni. Og þar fram eftir götunum. Það er hins vegar engin Mannhelgisgæsla til sem dregur höfunda til hafnar þegar þeir hafa verið staðnir að veiðum innan mannhelginnar – nema kannski innra með okkur lesendum þar sem sómakenndin og samlíðanin með öðrum togast á við hnýsnina um einkahagi annarra ... Við þurfum að þekkja í sundur skáldskap og svo aftur illgjarnt slaður og óhróður hins vegar. Verra er við að eiga þegar þetta fer saman í einni og sömu bókinni, eins og vill henda. Skáldsagan veitir visst skjól. Stundum skálkaskjól. Höfundurinn er í einhverjum skilningi í stikki þegar hann skrifar, leyfist ýmislegt vegna þess að við vitum að skáldskapurinn er vettvangur fyrir drauma og sögur okkar og er mikilvægur hluti af hinu opna og síkvika hugmyndakerfi samfélagsins sem aldrei má gefa einum hópi yfirráð yfir. Við sjáum þetta skjól iðulega misnotað til að jafna einhverjar sakir en segja svo um leið: þetta er bara skáldsaga. Stundum taka höfundar sér vald til að meiða, að því er virðist eingöngu til að fá tilfinninguna fyrir valdi sínu. Hvað er við því að gera? Segja: Var nú ekki óþarfi að vera að skrifa um þetta? Þá þarf höfundurinn að geta svarað: Nei, það var ekki óþarfi, það þurfti að skrifa um þetta.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun
Á dögunum var haldinn fundur í HÍ um mörkin á notkun rithöfunda á raunverulegum atvikum og örlögum annars fólks í verkum sínum. Þetta er flókið mál með margar hliðar, og var mjög vel reifað af háskólafólkinu eins og má sjá á Facebooksíðu Hugvísindasviðs HÍ.Návígi og skávígi Sjálfur hef ég ekki eindregnar skoðanir á þessu, eiginlega frekar tví- eða þrídregnar, eða kannski öllu heldur ódregnar. Við búum í litlu samfélagi – eins og við finnum öll sterkt um þessar mundir. Við þurfum að sýna hvert öðru tillitssemi en sú krafa getur stangast á við það hlutverk listamanna að gera hið kunnuglega annarlegt – og öfugt. Þessi árekstur getur verið óhjákvæmilegur, oft sársaukafullur – en það er misskilningur að það verði sjálfkrafa til listaverk um leið og hann á sér stað. Það er ekkert listrænt í sjálfu sér við að hneyksla og særa. Listamenn eru ekki hafnir yfir siðamörk þótt þeir starfi oft á þeim mörkum. Raunar mætti segja að það leggi fólki sérstakar skyldur á herðar að stunda listir. Áhrifaríkt listaverk opnar sérstakan aðgang að hugskoti njótenda og listamenn njóta sérstakra tjáningarfríðinda í samfélaginu. En þetta skáldaleyfi geta listamenn ekki umgengist af léttúð eða án þess að mega vænta þess að fólk bregðist við. Návígið hér og skávígið, oft þvert á stéttir og landshluta, auðveldar rithöfundum aðgang að ómótstæðilegu efni – en gerir þeim jafnframt erfiðara fyrir en ella: að þurfa að standa frammi fyrir einhverjum sem segir: Var nú ekki óþarfi að vera að skrifa um þetta? Og þá þarf að vera hægt að svara: Nei, þess þurfti. Við þekkjum það mörg sem fáumst við skriftir að hitta fólk sem vill segja sögu sína og býður manni ævi sína til frjálsra afnota: „Þú mátt nota þetta eins og þú vilt.“ Við þekkjum það líka að lesa um fólk í skáldsögu og hitta það svo kannski nokkru síðar á förnum vegi – mörkin milli skáldskapar og veruleika eru hér stundum óljósari en víða annars staðar. Íslendingar hafa löngum haft þörf fyrir að skoða líf sitt sem texta. Það er ein skýringin á þeirri fögru hefð sem hér ríkir í minningagreinaskrifum. Okkur hættir hins vegar til að einfalda samband skáldskapar og raunveru. Við gerum fyrirmyndaleit of hátt undir höfði og gleymum að lesa skáldverk á eigin forsendum: ekki síst í verkum Halldórs Laxness, sem gerði miklu meira af því að semja upp úr sér en við gerum okkur stundum grein fyrir. Eins og miklir skipstjórar átti hann sér draumkonu sem vísaði honum á auðugri mið í sköpunarhafinu en aðrir áttu aðgang að. Meira að segja þegar hann notfærði sér raunverulegt fólk – til dæmis í Íslandsklukkunni og Atómstöðinni – skapaði hann úr því eitthvað alveg nýtt og kiljanskt.Sæmd Sumir höfundar hafa ekki hikað við að taka traustataki „opinbera persónu“ og ráðskast með í eigin texta. Við sem lesum vitum að þetta eru ekki heimildir um viðkomandi raunpersónur, þær eru þarna ekki í sínu lífi, hreyfa sig í bókinni eftir öðrum lögmálum, inni í öðru heilabúi en sínu eigin, eru holdgervingar hugmynda. Kannski ekki ólíkt því að vera skrumskældur í skrípamynd eða áramótaskaupi. Örugglega hvimleitt en fátt við því að gera. Fólk á samt rétt á sinni sæmd – jafnvel út yfir gröf og dauða. Hver manneskja hefur um sig og líf sitt eitthvað sem kalla má „mannhelgi“ sem alls konar óskráðar en eindregnar umgengnisreglur kenna okkur að maður eigi ekki að vaða inn í. En rithöfundar hafa stundað ólöglegar veiðar í mannhelgi annarra frá elstu tíð. Hallgerður Höskuldsdóttir hefur um aldir átt um sárt að binda af völdum hins óþekkta höfundar Njálu sem í lýsingum sínum á henni fer yfir öll mörk sanngirni. Og þar fram eftir götunum. Það er hins vegar engin Mannhelgisgæsla til sem dregur höfunda til hafnar þegar þeir hafa verið staðnir að veiðum innan mannhelginnar – nema kannski innra með okkur lesendum þar sem sómakenndin og samlíðanin með öðrum togast á við hnýsnina um einkahagi annarra ... Við þurfum að þekkja í sundur skáldskap og svo aftur illgjarnt slaður og óhróður hins vegar. Verra er við að eiga þegar þetta fer saman í einni og sömu bókinni, eins og vill henda. Skáldsagan veitir visst skjól. Stundum skálkaskjól. Höfundurinn er í einhverjum skilningi í stikki þegar hann skrifar, leyfist ýmislegt vegna þess að við vitum að skáldskapurinn er vettvangur fyrir drauma og sögur okkar og er mikilvægur hluti af hinu opna og síkvika hugmyndakerfi samfélagsins sem aldrei má gefa einum hópi yfirráð yfir. Við sjáum þetta skjól iðulega misnotað til að jafna einhverjar sakir en segja svo um leið: þetta er bara skáldsaga. Stundum taka höfundar sér vald til að meiða, að því er virðist eingöngu til að fá tilfinninguna fyrir valdi sínu. Hvað er við því að gera? Segja: Var nú ekki óþarfi að vera að skrifa um þetta? Þá þarf höfundurinn að geta svarað: Nei, það var ekki óþarfi, það þurfti að skrifa um þetta.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.