Real Madrid nýtti sér mistök andstæðinga sinna og bætti við forskot sitt á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar með 3-0 sigri á Real Sociedad á heimavelli.
Madrídingar eru núna með fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar ásamt því að eiga leik til góða.
Börsungar, Sevilla og Atletico Madrid misstigu sig öll í dag og vissu lærisveinar Zinedine Zidane því alveg hvað sigur í dag myndi þýða.
Mateo Kovacic kom Real Madrid yfir á 38. mínútu en Cristiano Ronaldo var fljótur að bæta við forskotið með öðru marki Real Madrid á 51. mínútu leiksins.
Inigo Martinez, varnarmaður Real Sociedad, sá rautt spjald í seinni hálfleik og var það því aðeins formsatriði fyrir Madrídinga að klára leikinn.
Bætti Alvaro Morata við marki á 82. mínútu en það reyndist vera síðasta mark leiksins.
Real Madrid er því komið með gott forskot á toppi deildarinnar ásamt því að eiga leik til góða.
Strákarnir hans Zidane virðast vera vaknaðir á ný eftir óvænta tvo tapleiki í röð á dögunum.

