Ólafía spilaði frábærlega á fyrstu tveimur dögunum á mótinu. Hún var á tveimur höggum undir pari eftir fyrsta daginn og hún bætti um betur í gær og lék á fimm höggum undir pari. Ólafía komst auðveldlega í gegnum niðurskurðinn.
Ólafía og fimm aðrir kylfingar eru jafnir í 20. sæti. Hún er í ráshóp með Moriya Jutanugarn frá Tælandi.
Golfstöðin hefur sýnt frá fyrstu tveimur keppnisdögunum en þar sem útsendingartími mótsins skarast við útsendingartíma Farmers Insurance mótið á PGA-mótaröðinni verður sýnt frá Pure Silk-mótinu á Stöð 2 Sport 4. Útsendingin, sem hefst klukkan 20.00, verður aðgengileg fyrir áskrifendur Golfstöðvarinnar.
Þá verður vitaskuld bein textalýsing frá gangi mála á íþróttavef Vísis.
