Innlent

Áhersla skal lögð á opið og gagnsætt söluferli ríkiseigna

Atli Ísleifsson skrifar
Í sáttmálanum segir að ríkið eigi að nýta betur sameiginleg innkaup til að draga úr útgjöldum.
Í sáttmálanum segir að ríkið eigi að nýta betur sameiginleg innkaup til að draga úr útgjöldum. Vísir/Anton Brink
Ný ríkisstjórn hyggst leggja áherslu á opið og gagnsætt söluferli ríkiseigna á kjörtímabilinu og stofna skal stöðugleikasjóð sem mun halda utan um arð af orkuauðlindum í eigu ríkissjóðs.

Þetta kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sem kynntur var í dag.

Ekki kemur fram hvaða eignir ríkisins standi til að selja. Í kaflanum um framtíð bankakerfisins segir hins vegar að til langs tíma litið sé ekki ákjósanlegt að ríkið fari með meirihlutaeign í viðskiptabönkum.

„Því er mikilvægt að minnka hlut ríkisins í varfærnum skrefum og víðtækri sátt. Áhersla verði lögð á opið og gagnsætt ferli þar sem gætt verður að sem mestri dreifingu eignarhalds. Í því augnamiði verði stefnt að því að almenningur geti fengið tiltekinn eignarhlut afhentan endurgjaldslaust.“

Hreinar skuldir ríkisins engar innan tíu ára

Í sáttmálanum segir enn fremur að með aðhaldi í ríkisrekstri, sölu eigna sem komust í eigu ríkissjóðs í kjölfar bankahrunsins og niðurgreiðslu ríkisskulda verði áfram stutt við sterka stöðu í ríkisfjármálum.

Þá á ríkið að nýta betur sameiginleg innkaup til að draga úr útgjöldum.

„Sett skulu tímasett markmið um betri rekstur og aukna framleiðni hjá hinu opinbera. Stefnt er að því að allar varanlegar útgjaldaákvarðanir rúmist innan hagsveiflunnar. Langtímamarkmið er að hreinar skuldir ríkissjóðs verði engar innan tíu ára.

Stofna skal stöðugleikasjóð sem haldi utan um arð af orkuauðlindum í eigu ríkissjóðs, tryggi komandi kynslóðum hlutdeild í ávinningi af sameiginlegum auðlindum og geti verið sveiflujafnandi fyrir efnahagslífið.

Stöðugleiki á vinnumarkaði er mikilvæg forsenda jafnvægis og vaxtar í efnahagslífi. Einn vinnumarkaður með jöfnun lífeyrisréttinda og annarra almennra réttinda er lykilatriði sem leiða mun til meira gagnsæis í kjaramálum. Ríkisstjórnin mun styðja aðila vinnumarkaðarins í frekari umbótum á íslenska vinnumarkaðslíkaninu að norrænni fyrirmynd sem drög hafa verið lögð að í svonefndu SALEK-samkomulagi,“ segir í sáttmálanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×