Maðurinn, sem grunaður er um árás á skemmtistað í Istanbúl á nýársnótt, hefur verið handtekinn af tyrknesku lögreglunni. BBC greinir frá.
Í árásinni á nýársnótt réðst maðurinn inn á skemmtistaðinn Reina í miðborg Istanbúl og hóf skothríð á gesti staðarins með þeim afleiðingum að 39 manns létust og 69 manns særðust. Eftir árásina lét hann sig svo hverfa.
Tyrkneska lögreglan hefur síðan árásin átt sér stað lagt nótt við nýtan dag til þess að hafa hendur í hári árásarmannsins, en um er að ræða mann frá Úsbekistan sem ber nafnið Abdulkadir Masharipov.
Hryðjuverkasamtök sem kenna sig við Íslamska ríkið hafa áður sagt að þau hafi borið ábyrgð á árásinni. Árásarmaðurinn var handtekinn á heimili félaga síns í Istanbúl og hefur verið færður til yfirheyrslu.
