Innlent

Nýr stjórnarsáttmáli: Samþykki Alþingis þarf fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB

Sunna Karen Sigurþórsdóttir og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Frá fundi ráðgjafaráðs Viðreisnar í kvöld.
Frá fundi ráðgjafaráðs Viðreisnar í kvöld. vísir/hanna
Peningastefnan verður endurskoðuð í samræmi við skýrslu Seðlabankans frá árinu 2012 og lögð verður fram þingsályktunartillaga fyrir lok þings um hvort kjósa eigi um áframhaldandi aðildarviðræður við Evrópusambandið. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýgerðum stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

Stjórnarsáttmálinn kveður á um að peningastefnan verði endurskoðuð á fyrsta starfsári, en það var það mál sem Viðreisn lagði upp með í kosningabaráttu sinni.

Jafnframt verður unnið að því að breyta búvörusamningnum, en endurskoðun hans á að verða grunnur að nýjum samningi við bændur eigi síðar árið 2019, ásamt því sem draga á úr styrkjum til bænda. Á sama tíma á svo að auka frelsi þeirra og vöruúrval neytenda, samkvæmt heimildum fréttastofu. Einnig er lagt til að markaðstengt gjald verði tekið upp í sjávarútvegi.

 

Þá á að bæta heilbrigðiskerfið og stefnt verður að því að lækka kostnaðarþátttöku sjúklinga, stytta biðtíma, og hraða uppbyggingu Landspítala við Hringbraut, svo fátt eitt sé nefnt. Jafnframt verður þjónusta við aldraða aukin, lífeyrisaldur verður hækkaður og frítekjumark ellilífeyrisþega hækkað.

Stuðningur við foreldra með geðvanda verður aukinn, fæðingarorlof verður hækkað í skrefum og öllum fyrirtækjum með 25 starfsmenn eða fleiri verður gert að taka upp jafnlaunavottun.

Loks verður stjórnarskráin endurskoðuð með fulltrúum allra flokka með hliðsjón af þeirri vinnu sem þegar hefur verið unnin, samkvæmt sáttmálanum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×