Fótbolti

Milan vann ítalska Ofurbikarinn í sjöunda sinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Milan fögnuðu sigri eftir vítakeppni.
Leikmenn Milan fögnuðu sigri eftir vítakeppni. vísir/getty
AC Milan bar í kvöld sigurorð af Juventus í leiknum um Ofurbikar Ítalíu. Leikurinn fór fram í Doha í Katar og réðust úrslit hans ekki fyrr en í vítaspyrnukeppni. Staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu en Milan vann vítakeppnina 4-3.

Giorgio Chiellini kom Juventus yfir á 18. mínútu þegar hann skallaði aukaspyrnu Miralems Pjanic í netið. Giacomo Bonaventura jafnaði metin í 1-1 á 38. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf Suso.

Fleiri urðu mörkin ekki í venjulegum leiktíma né framlengingu og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni.

Bæði lið nýttu þrjár af fyrstu fjórum spyrnum sínum. Í lokaumferðinni varði hinn 17 ára gamli Gianluigi Donnarumma frá Paolo Dybala. Króatinn Mario Pasalic gat því tryggt Milan sigurinn með því að skora úr næstu spyrnu sem og hann gerði.

Þetta er í sjöunda sinn sem Milan vinnur þennan árlega leik um ítalska Ofurbikarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×