Fótbolti

Markasúpur í riðlakeppni Meistaradeildarinnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
8-4.
8-4.
Riðlakeppni Meistaradeildarinnar tímabilið 2016/2017 lauk í gærkvöldi þegar síðustu leikirnir í E-H riðlum fóru fram. Nú er ljóst hvaða lið verða í pottinum þegar dregið verður til 16 liða úrslitanna í næstu viku.

Spennan var ekki mikil fyrir lokaumferðina í riðlakeppninni að þessu sinni en hún var að ýmsu leyti furðuleg, þá sérstaklega er varðar markaskorun. Boðið var upp markasúpur í hverri umferð en ógrynni marka voru skoruð í ár.

Í heildina eru spilaðir 96 leikir í riðlakeppni Meistaradeildarinnar en í ár voru skoruð fjögur mörk eða fleiri í 33 leikjum af 96 eða í 35 prósent leikjanna.

Tíu af þessum 33 leikjum enduðu með jafntefli en þrettán af þessum 33 markasúpum enduðu með algjöru rústi þar sem sigurliðið vann með fjórum mörkum eða fleiri. Sjaldan hafa nefnilega sést jafnmiklir yfirburðir í leikjum og í Meistaradeildinni í ár en bara í gær vann Porto sjálfa Englandsmeistara Leicester, 5-0.

Fjögur mörk eða fleiri voru skoruð í sex leikjum í A, C og F-riðlum en B og C-riðlar komu þar næstir með fjóra þannig leiki. Menn voru rólegastir í E og G-riðlum þar sem „aðeins“ tvær markasúpur voru á boðstólum.

Mest var skorað í viðureign Dortmund og Legía Varsjá eða tólf mörk. Sá leikur endaði með fjögurra marka sigri þýska liðsins, 8-4.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×