Það skýrist í dag hvort hafnar verði formlegar stjórnarmyndunarviðræður Vinstri grænna og fjögurra annarra flokka. Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna fundar með formönnum flokkanna klukkan eitt í Alþingishúsinu.
Katrín bauð í gær formönnum Pírata, Bjartrar framtíðar, Samfylkingar og Viðreisnar til fundar við sig svo og fleiri fulltrúum flokkanna. Fundurinn stóð í um tvo og hálfan tíma. Töluverðar bjartsýni gætti í hópnum að fundi loknum um að flokkarnir geti myndað ríkisstjórn saman.
Á fundinum í gær var farið yfir ýmis mál svo sem heilbrigðismál, skattamál, sjávarútvegsmál og stjórnarskrármálið. Katrín ætlar að upplýsa Guðna Th. Jóhannesson forseta Íslands um það eftir helgina hver staðan er og segir að ef ákveðið verði að fara í formlegar viðræður þá geti þær ekki tekið langan tíma.
Formennirnir funda saman klukkan eitt í dag í Alþingishúsinu. Katrín á von á að það skýrist eftir þann fund hvort að flokkarnir fimm hefji formlegar stjórnarmyndunarviðræður.
