Gareth Bale meiddist í leik með Real Madrid í Meistaradeildinni í gær og það gæti allt eins farið svo að hann gæti ekki spilað í komandi stórleik á móti erkifjendunum í Barcelona.
Bale haltraði útaf í 2-1 sigri Real Madrid á Sporting Lissabon eftir að hafa meiðst á ökkla.
„Hann snéri upp á ökklann en fékk ekki högg. Við verðum bara að bíða og sjá til hvað vandamálið er,“ sagði Zinedine Zidane, þjálfari Real Madrid.
Real Madrid er á toppi spænsku deildarinnar og hefur fjögurra stiga forskot á Barcelona. Liðin mætast á Nou Camp í Barcelona laugardaginn 3. desember.
„Læknaliðið okkar mun skoða hann á morgun (í dag) og eftir það vitum við meira,“ sagði Zidane.
Real Madrid tryggði sér sæti í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar með sigrinum. Karim Benzema skoraði sigurmarkið undir lok leiksins.
Gareth Bale er með 7 mörk og 4 stoðsendingar í 16 leikjum með Real Madrid í spænsku deildinni og Meistaradeildinni á tímabilinu. Hann hefur bara misst af einum leik til þessa á leiktíðinni en það var vegna meiðsla á mjöðm í september.
Það væri slæmt fyrir Real Madrid að vera án Gareth Bale í Barcelona-leiknum en velski landsliðmaðurinn á einnig eftir að sanna ýmislegt í El Clasico. Bale á nefnilega enn eftir að skora í deildarleik á móti Barcelona.
Hann skoraði aftur á móti sigurmarkið í bikarúrslitaleik á móti Barcelona vorið 2014 en sá leikur fór fram á Mestalla í Valencia.

