FC Rostov braut blað í sögu félagsins í kvöld þegar það vann 3-2 sigur á Bayern München í D-riðli Meistaradeildar Evrópu. Þetta var fyrsti sigur Rostov í Meistaradeildinni frá upphafi.
Þrátt fyrir sigurinn á Rostov ekki möguleika á að komast upp úr riðlinum. Liðið er hins vegar komið í Evrópudeildina eftir áramót ef PSV Eindhoven mistekst að vinna Atlético Madrid á eftir.
Douglas Costa kom Bayern yfir á 35. mínútu en Íraninn efnilegi Sardar Azmoun jafnaði metin mínútu fyrir hálfleik.
Strax á þriðju mínútu seinni hálfleiks fékk Rostov vítaspyrnu eftir að Jerome Boateng braut af sér innan teigs. Dmitri Poloz fór á punktinn og skoraði af öryggi.
Forysta Rostov entist bara í fjórar mínútur því vinstri bakvörðurinn Juan Bernat jafnaði metin með frábæru skoti á 52. mínútu.
Gestirnir frá München voru miklu meira með boltann og áttu fleiri marktilraunir í leiknum en það voru Rússanir sem skoruðu sigurmarkið. Það gerði Christian Noboa með skoti beint úr aukaspyrnu. Lokatölur 3-2, Rostov í vil.
