Með sigrinum fór Man Utd upp fyrir Feyenoord og í 2. sæti riðilsins. United-mönnum dugir jafntefli gegn Zorya Luhansk í lokaumferð riðlakeppninnar til að komast áfram í 64-liða úrslit.
Wayne Rooney var í byrjunarliði Man Utd í kvöld og hann kom sínum mönnum yfir á 35. mínútu með sögulegu marki. Rooney er nú orðinn markahæsti leikmaður Man Utd í Evrópukeppnum með 39 mörk. Hann vantar líka núna aðeins eitt mark til að jafna markamet Sir Bobby Charlton hjá Man Utd.
Heimamenn voru áfram sterkari aðilinn í seinni hálfleik og bættu þá við þremur mörkum.
Juan Mata potaði boltanum yfir línuna á 69. mínútu eftir sendingu Rooneys og sex mínútum síðar skoraði Brad Jones, markvörður Feyenoord, sjálfsmark og staðan orðin 3-0.
Varamaðurinn Jesse Lingard skoraði svo fjórða og síðasta mark Man Utd með góðu skoti í uppbótartíma. Lokatölur 4-0, Man Utd í vil.
Í hinum leik riðilsins vann Fenerbache 2-0 sigur á Zorya Luhansk á heimavelli.