Andres Iniesta, fyrirliði Barcelona, er búinn að ná sér af meiðslunum og getur spilað á móti Real Madrid í El Clasico á laugardaginn.
Luis Enrique, þjálfari Barcelona, sagði frá því á blaðamannafundi í dag að Andres Iniesta sé algjörlega búinn að ná sér.
Andres Iniesta meiddist á hné í október og hefur verið frá keppni síðan.
Luis Enrique sagði að Andres Iniesta hefði spilað bikarleikinn á móti Hercules á morgun ef hann hefði ekki verið í leikbanni.
„Hann er alveg búinn að ná sér að fullu. Við erum bara að bíða eftir því að hann fái grænt ljós hjá læknum liðsins,“ sagði Luis Enrique.
Barcelona er sex stigum á eftir toppliði Real Madrid og verður hreinlega að vinna leikinn á móti Real sem fram fer á Nývangi á laugardaginn og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.
Andres Iniesta hefur misst af síðustu sex leikjum Barcelona í spænsku deildinni og Meistaradeildinni. Barcelona-liðið hefur „aðeins“ unnið þrjá af þessum sex leikjum án hans sem þykir ekki merkilegur árangur á þeim bænum.
Gleðifréttir fyrir Barcelona-liðið
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
