Luka spilaði lengi í Króatíu áður en hann kom hingað til lands og varð meðal annars Íslandsmeistari með ÍA en hann fylgist vel með króatíska landsliðinu sem strákarnir okkar mæta í fjórðu leikviku undankeppni HM2018.
Sjá einnig:Nýr heimur fyrir Heimi í Zagreb
Króatíska liðið er virkilega gott en það hefur aðeins tapað einum leik af ellefu á árinu. Það var gegn Portúgal í átta liða úrslitum EM í Frakklandi en Portúgal stóð síðar uppi sem Evrópumeistari.
„Við erum ekkert að fara til Króatíu til neins annars en að vinna leikinn,“ segir Luka sem þjálfaði síðast Hauka með frábærum árangri í Inkasso-deildinni en hefur nú tekið við starfi yfirþjálfara Víkings.
„Við erum með frábæran hóp á frábærum aldri. Strákarnir okkar gætu ekki verið á betri fótboltaaldri. Leikmennirnir eru fullir sjálfstrausts og þá finnst mér Heimir vera að taka skref fram á við með liðið eins og sást með góðu flæði í sókninni á móti Tyrklandi.“

Í annað sinn í undankeppninni spilar íslenska liðið fyrir tómum velli en engir áhorfendur verða á Maksimir-vellinum í Zagreb á laugardaginn. Hefur þetta áhrif á króatíska liðið?
„Þessir menn eru atvinnumenn. Þetta hefur held ég ekki mikil áhrif. Hópurinn er mjög hæfileikaríkur með góða einstaklinga. Þarna eru einstaklingar sem geta unnið leikina. Ég held að þetta hafi engin áhrif, nei,“ segir Luka.
Ísland tapaði, 2-0, þegar liðið mætti síðast til Zagreb en það var leikurinn frægi í umspili um sæti á HM 2014 sem sat lengi í strákunum okkar. Eiga þeir möguleika að þessu sinni?
„Ég held að við séum töluvert sterkari sem lið. Okkar árangur byggist á liðsheildinni en hjá Króötum byggist þetta á einstaklingsframtaki,“ segir Luka.
„Þetta verður erfiðasti leikurinn hingað til. Við verðum að vera þéttari, ákveðnari og leggja okkur meira fram en í hinum leikjum. Þetta þarf bara að vera sama uppskriftin og hefur verið,“ segir Luka Kostic.
Fréttina úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá í spilaranum hér að ofan.