Frakkar eru einir á toppi A-riðils efti 2-1 sigur á Svíum á Stade de France í kvöld í undankeppni HM 2018.
Svíar komust í 1-0 með marki Emil Forsberg beint úr aukaspyrnu en mörk frá þeim Paul Pogba og Dimitri Payet á átta mínútna kafla sáu til þess að Frakkar fengu öll stigin.
Bæði lið voru án taps og með sjö stig á toppi riðilsins fyrir þennan leik en Frakkar stigu stórt skref í átt að sæti í úrslitakeppninni með sigrinum í kvöld.
Sænska landsliðið tapaði þarna sínum fyrsta leik eftir að Lars Lagerbäck, fyrrum þjálfari íslenska karlalandsliðsins, fór að aðstoða Janne Andersson, aðalþjálfara sænska liðsins.
Emil Forsberg kom Svíum í 1-0 á 54. mínútu með skoti úr aukaspyrnu af löngu færi en Hugo Lloris markvörður Frakka misreiknaði skotið illa.
Svíar voru þó bara yfir í þrjár mínútur því á 57. mínútu skallaði Paul Pogba aukaspyrnu frá Dimitri Payet í slá og inn.
Dimitri Payet skoraði síðan sjálfur sigurmarkið á 65. mínútu þegar boltinn barst til hans í teignum.
Dimitri Payet, leikmaður West Ham í ensku úrvalsdeildinni, fór á kostum með Frökkum á EM í Frakklandi í sumar og hann er áfram í hetjuhlutverki hjá liðinu.

