Fundur Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar um mögulega stjórnarmyndun stendur enn yfir, en hann hófst snemma í morgun. Búist er við að hann muni standa fram á nótt.
„Þetta mjakast hægt áfram,“ segir Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, í samtali við fréttastofu, en vildi að öðru leyti lítið tjá sig um stöðu mála.
„Ég er hóflega bjartsýnn,“ segir Benedikt, aðspurður.
Fjögurra manna teymi frá hverjum flokki hafa undanfarna daga unnið að texta nýs stjórnarsáttmála á ótilgreindum stað.
Þingflokkar Viðreisnar og Bjartrar framtíðar héldu í dag sameiginlegan þingflokksfund þar sem línur voru lagðar, en þingflokkur Sjálfstæðisflokks fundaði síðast á föstudag, þar sem flokkurinn lagði blessun sína yfir formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Bjarta framtíð og Viðreisn.
