Fótbolti

Pochettino: Verðum að búa til rétta andrúmsloftið á Wembley

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Pochettino á bekknum á Wembley.
Pochettino á bekknum á Wembley. vísir/getty
Stjóri Tottenham, Mauricio Pochettino, hefur skorað á leikmenn sína að breyta Wembley-vellinum í virki fyrir sig í Meistaradeildinni.

Tottenham tekur á móti þýska liðinu Bayer Leverkusen í Meistaradeildinni á Wembley í kvöld. Mörgum þótti galið hjá félaginu að spila Meistaradeildarleikina á Wembley en þar hefur Tottenham aldrei getað neitt.

Spurs hefur aðeins unnið einn af sex leikjum sínum á vellinum. Síðustu vonbrigðin voru 2-1 tap þar fyrir Monaco í september fyrir framan 85 þúsund áhorfendur.

„Það er mikil hvatning fyrir liðin sem koma hingað að fá að spila á Wembley. Það var þannig fyrir mig er ég gerði það sem leikmaður. Einstök reynsla að spila á Wembley,“ sagði Pochettino.

„Það þarf að vera þannig líka fyrir okkur. Það þarf að færa okkur innblástur að spila þarna. Það verða um 90 þúsund manns með okkur í liði og það á að vera vandamál fyrir andstæðinginn. Við verðum að nýta okkur það.

„Það er okkar skylda að búa til rétta andrúmsloftið. Ef við gerum það þá fáum við orkuna frá 90 þúsund manns og getum gert andstæðingnum lífið leitt.“

Leikur liðanna hefst klukkan 19.45 í kvöld og er í beinni á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×