Danska ríkið hefur aðeins gert upptækar um tvær milljónir íslenskra króna með gríðarlega umdeildum lögum sem sett voru í ársbyrjun. Lögin heimila yfirvöldum meðal annars að gera verðmætar eignir flóttamanna upptækar.
Breska ríkisútvarpið hefur það eftir dönsku lögreglunni að eignir hafi fjórum sinnum verið gerðar upptækar með þessum hætti frá því að lögin voru samþykkt í febrúar. Samtals hafi lögregla haft 117.600 danskar krónur upp úr krafsinu, um 1,9 milljónir íslenskra króna.
Lögin hafa sætt mikilli gagnrýni, bæði í Danmörku og víðar, og þeim meðal annars líkt við það þegar eignir gyðinga voru gerðar upptækar á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar.
Johanne Schmidt-Nielsen, þingmaður Rauðgræna bandalagsins sem mælti gegn lögunum á sínum tíma, segir takmarkaða beitingu laganna sýna það að þeim hafi fyrst og fremst verið ætlað að hræða flóttamenn í burtu frá Danmörku.
Hælisumsóknum hefur fækkað verulega í Danmörku á árinu en í frétt breska ríkisútvarpsins segir að það sé í takti við þróun í flestum ríkjum Evrópu og tengist sennilega frekar aðgerðum í Tyrklandi og á Balkanskaga frekar en áhrifum dönsku laganna.
Lögunum var fjórum sinnum beitt á árinu. 79.600 danskar krónur, um 1,3 milljónir, sem teknar voru af fimm Írönum í júní var stærsta einstaka upphæðin.
Danir tekið tæpar tvær milljónir króna af flóttamönnum á árinu

Tengdar fréttir

Danska flóttamannafrumvarpið: Fá 92 aura í vasapening á dag
Frumvarp heimilar meðal annars dönskum yfirvöldum að gera verðmætar eignir flóttamanna upptækar.

Danir hyggjast herða reglur um hælisleitendur enn frekar
Lars Løkke Rasmussen segir straum flóttafólks til Danmerkur geta leitt til ringulreiðar í landinu.

Lagafrumvarp í Danmörku gagnrýnt víða
Frumvarpið heimilar yfirvöldum að leggja hald á eignir flóttafólks.