Roger Schmidt mátti ekki koma nálægt leik sinna manna í Bayer Leverkusen í gær þegar liðið datt óvænt út úr þýsku bikarkeppninni.
Bayer Leverkusen tapaði þá 4-3 í vítakeppni á móti þriðju deildarliðinu Sportfreunde Lotte en þetta var önnur umferð þýska bikarsins.
Roger Schmidt þurfti að horfa á leikinn á spjaldtölvu út í rútu liðsins því hinn 49 ára gamli þjálfari tók út fyrsta leikinn í tveggja leikja banni.
Roger Schmidt var dæmdur í bann fyrir að öskra ókvæðisorð að þjálfara Hoffenheim í leik liðanna í þýsku deildinni á laugardaginn var. Hann var í raun að klára fimm leikja bann frá því í fyrra en tveir síðustu leikirnir voru skilorðsbundnir.
Eftir læti Roger Schmidt á hliðarlínunni um helgina var það ljóst að hann yrði að taka út síðustu tvo leikina.
Það dugði ekki Bayer Leverkusen að leikmenn Sportfreunde Lotte klikkuðu á tveimur fyrstu vítaspyrnum sínum í vítakeppninni.
Kevin Volland og Charles Aranguiz hjá Bayer Leverkusen klikkuðu báðir á sínum vítum og markvörðurinn Benedikt Fernandez var síðan hetjan þegar hann varði síðustu spyrnu Leverkusen frá Julian Baumgartlinger.
Þetta er búið að vera mikið bikarævintýri hjá Sportfreunde Lotte í vetur en liðið sló Werder Bremen út í fyrstu umferðinni.

