„Við erum bara að reyna að ná til ungs fólks og hvetja þau til að kjósa. Við biðjumst hins vegar velvirðingar ef þetta fer fyrir brjóstið á fólki,“ segir Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri Pírata í samtali við Vísi en kannanir hafa sýnt að Píratar njóta mikils fylgis í þessum aldurshópi. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að þetta er sá aldurshópur sem mætir hvað verst á kjörstað og því reynir flokkurinn að ná til líklegra kjósenda með þessum hætti.
Píratar keyptu lista frá CreditInfo með símanúmerunum en fyrirtækið hefur leyfi frá Þjóðskrá til að selja upplýsingarnar áfram eftir tilteknum reglum.
Hér að neðan má sjá myndbandið sem linkað var á í skilaboðunum.
Þá kærði einstaklingur Sjálfstæðisflokkinn til Póst-og fjarskiptastofnunar vegna smáskilaboða sem hann fékk frá flokknum á kjördag en símanúmerið var bannmerkt. Einstaklingurinn var hins vegar skráður í Heimdall og var símanúmer hans því skráð hjá Sjálfstæðisflokknum.
Hann kvartaði hins vegar til Póst- og fjarskiptastofnunar þar sem hann taldi skilaboðasendinguna brot á 1. málsgrein 46. greinar fjarskiptalaga. Féllst stofnunin á það en Sjálfstæðisflokkurinn kærði þá ákvörðun og felldi úrskurðarnefnd fjarskipta og póstmála ákvörðunina úr gildi.
Taldi úrskurðarnefndin ekki útilokað að Sjálfstæðisflokkurinn hefði haft fyrirfram samþykki einstaklingsins fyrir „umræddum fjarskiptasendingum og að slíkt samþykki hafi ekki verið afturkallað af hálfu kvartanda með sannanlegum hætti. Af þeirri ástæðu beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Þar með telur nefndin ekki þörf á að taka til frekari skoðunar hvort að um beina markaðssetningu hafi verið að ræða eða ekki.“