„Það má kannski segja að þetta sé að byrja að setjast. Ég myndi nú samt ekki ganga svo langt að segja að myndin sé orðin skýr. Það sem vekur mesta athygli hjá mér hérna er að þið eruð að fá betri svörun,“ segir Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Þar vísar hann til þess að í könnuninni sem gerð var í byrjun vikunnar tóku 67,2 prósent afstöðu en 58,6 prósent tóku afstöðu í könnuninni í síðustu viku. „Það segir mér að fólk er svona betur farið að gera upp sinn hug. Og hugsanlega er könnunin orðin marktækari en þær sem á undan gengu,“ segir Eiríkur Bergmann um þessa þróun í könnuninni.
Hann segir nokkrar áhugaverðar línur birtast í könnuninni. Sú fyrsta að fjórflokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og VG, eru einungis með 53,6 prósent af fylginu. Önnur sé sú að Sjálfstæðisflokkurinn sé farinn að lækka í könnunum Fréttablaðsins. „Hann er reyndar ekkert lægri en hann hefur verið sumstaðar í öðrum könnunum. En hann er farinn að lækka hjá ykkur og það er eftirtektarvert,“ segir Eiríkur Bergmann. Í síðustu könnun Gallup sem gerð var 16. til 29. september var Sjálfstæðisflokkurinn með 23,7 prósenta fylgi og 20,6 prósent í könnun MMR sem gerð var 20. til 26. september. Þá segir Eiríkur það líka eftirtektarvert hvað Píratar halda sínu fylgi. „Það veit á að þeir muni kannski ekki hrynja fyrir kosningar eins og einhverjir hefðu getað spáð.“ Þá veki það líka athygli að Björt framtíð haldi áfram að klóra sig upp og í þessari könnun sé flokkurinn kominn dálítið vel yfir fimm prósenta þröskuldinn.
Þá segir Eiríkur stöðu Viðreisnar athyglisverða. „Mér finnst eftirtektarvert að Viðreisn, þó hún mæti sterk til leiks, þá nær hún ekki því háflugi sem maður hefði getað haldið um tíma að hún myndi ná,“ segir Eiríkur. Þar bendir hann líka á að Fréttablaðið mæli Viðreisn ögn lægri en aðrir könnunaraðilar.

Af minni flokkum er vert að nefna að Dögun fær 2,1 prósents fylgi og Flokkur fólksins fær 3,3 prósent. Aðrir flokkar fá minna. Eiríkur segir að frammistaða Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, í umræðuþáttum í Ríkissjónvarpinu skipti sköpum. „Þetta fylgi Flokks fólksins er auðvitað tilkomið út af góðri frammistöðu Ingu. Hún hefur sprottið fram eins og fullbúin pólitísk stjarna,“ segir hann.
Eiríkur segir að miðað við niðurstöður nýju könnunarinnar sé hægt að tala um fjórar deildir á pólitíska sviðinu. Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar séu í efstu deild, síðan koma Vinstri græn sem eru ein í annarri deild. Svo koma Framsóknarflokkurinn, Viðreisn, Björt framtíð og Samfylkingin í þriðju deildinni. „Það er alveg óvíst að allir þessir flokkar nái inn á þing. Það gæti alveg verið að einhver þeirra detti út í utandeildina,“ segir Eiríkur Bergmann.
Yrðu niðurstöður kosninganna í takti við niðurstöður könnunarinnar fengju Píratar og Sjálfstæðismenn sextán þingmenn hvor. Tíu þingmenn sætu í þingflokki VG, sex í þingflokki Framsóknarflokksins. Þingflokkar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar yrðu svo jafnstórir eða með fimm menn í hverjum flokki.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu
