Fótbolti

Bliki spurði bestu fótboltakonu sögunnar: „Hvað í andskotanum er að þér?“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Marta átti erfitt uppdráttar gegn sterkri vörn Breiðabliks.
Marta átti erfitt uppdráttar gegn sterkri vörn Breiðabliks. vísir/getty
Kvennalið Breiðabliks stóð sig frábærlega í Meistaradeild Evrópu í ár og gaf sænska stórliðinu Rosengård tvo alvöru leiki í 32 liða úrslitum keppninnar.

Sænska liðið vann 1-0 í Kópavoginum en í gær skildu liðin jöfn, markalaus, á heimavelli Rosengård í Malmö í Svíþjóð en eitt mark frá Blikunum hefði komið leiknum í framlengingu.

Rosengård er búið að vinna sænska meistaratitilin undanfarin fjögur ár en með liðinu spilar hin brasilíska Marta sem er talin besta fótboltakona allra tíma.  Hún er sú sem oftast hefur verið valin besta fótboltakona heims, en sú brasilíska hirti þann titil fimm ár í röð frá 2006-2010. Birgit Prinz frá Þýskalandi kemur þar næst en hún var valin best þrisvar sinnum frá 2003-2005.

Blikarnir spiluðu flottan varnarleik í gær og létu greinilega vita af sér í leiknum. Ingibjörg Sigurðardóttir, varnarmaður Breiðabliks, hellti sér yfir Mörtu í leiknum en frá því greinir hún á Twitter-síðu sinni.

„Sagði „hvað í andskotanum er að þér“ við bestu fótboltakonu allra tíma áðan,“ skrifar Ingibjörg á Twitter en þó hún nefni engin nöfn má auðveldlega leiða að því líkum að hún sé að tala um Mörtu.

Guðrún Arnardóttir, miðvörður Breiðabliks sem gat ekki verið með í leiknum í gær, var ánægð með samherja sinn og sagði hana drottningu á vellinum og undir það tók landsliðsframherjinn Berglind Björg Þorvaldsdóttir.

Mörtu tókst ekki að skora á móti Blikunum en markið sem á endanum kom Rosengård áfram skoraði sænski landsliðsframherjinn Lotta Schelin í Kópavoginum í fyrri leik liðanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×