Friður í uppnámi Stefán Pálsson skrifar 16. október 2016 10:00 Tilraunir stjórnarhersins til að ráða niðurlögum skæruliðanna með loftárásum og stuðningi við dauðasveitir sem kostuðu fjölda óbreyttra borgara lífið voru einungis til þess fallnar að afla hreyfingunni nýrra liðsmanna. Mynd/aðsend Marga fýsir að vita hvað um þá verður sagt eftir dauðann. Ýmsar sögur hafa jafnvel verið sagðar af fólki sem sviðsett hefur dauða sinn í því skyni að kanna viðbrögð eftirlifenda og mætinguna í útförina. Ekki er hægt að mæla með þeirri hegðun og ekki er gott ef niðurstaðan kemur óþægilega á óvart. Árið 1888 lést sænski verkfræðingurinn Lúðvík Nóbel á ferðalagi í Frakklandi. Hann var umsvifamikill í olíuiðnaði og lagði raunar grunninn að olíuiðnaði Rússa í Bakú í Aserbaídsjan, sem framleiddi um tíma helming allrar olíu sem unnin var í veröldinni. Franskur blaðamaður hljóp hins vegar illilega á sig þegar hann flutti fregnir af andlátinu og sló Lúðvík saman við bróður hans, Alfreð. Alfreð Nóbel var ekki síður vellríkur en bróðirinn. Hans auðlegð byggðist hins vegar á framleiðslu sprengiefnis og þá einkum dínamíti sem hann hlaut einkaleyfi á árið 1867. Sprengiefni kom vitaskuld að gagni við hvers kyns verklegar framkvæmdir, en það mátti einnig nota í öðrum tilgangi: til að skapa sífellt stærri og öflugri sprengjur. Franski blaðamaðurinn einblíndi á stríðsþáttinn og kallaði Nóbel því „sölumann dauðans“ í minningargreininni. Fréttin varð verulegt áfall fyrir Alfreð Nóbel og það sem eftir var ævinnar kappkostaði hann að tryggja sér betri eftirmæli. Í því skyni setti hann á stofn gríðaröflugan verðlaunasjóð sem veita skyldi viðurkenningar fyrir uppgötvanir á sviði helstu raunvísindagreina en einnig fyrir bókmenntir og störf að friðarmálum. Flest Nóbelsverðlaunanna eru veitt af sérstakri akademíu í Stokkhólmi. Friðarverðlaun Nóbels eru hins vegar á vegum norska stórþingsins. Þau verðlaun hafa í gegnum tíðina vakið hvað harðastar deilur. Ein ástæðan er sú að mörgum þykir dómnefndin teygja sig ansi langt í útnefningum sínum og fara þar á svig við stofnskrána sem setur mjög stíf skilyrði um að þeir einir komi til greina sem verðlaunahafar sem beinlínis hafi unnið að afvopnun eða stuðlað að friði í deilum ríkja eða þjóðernishópa. Þannig heimilar stofnskráin ekki að verðlaunin séu veitt almennum mannréttinda- eða náttúruverndarsamtökum, hversu verðug sem þau kunna annars að vera. Á sama hátt má það teljast hæpin ráðstöfun að veita Obama Bandaríkjaforseta verðlaunin í blábyrjun embættistíðar hans, að því er virðist í hvatningarskyni til að láta gott af sér leiða frekar en fyrir raunveruleg afrek. Friðarverðlaunahafi ársins 2016 fellur þó vel að skilyrðum stofnandans. Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu, hlaut þau fyrir þátt sinn í samkomulagi milli ríkisstjórnar sinnar og FARC-skæruliða. Því var ætlað að ljúka meira en hálfrar aldar langri borgarastyrjöld í landinu sem kostað hefur meira en 200 þúsund mannslíf.Alþýðuhetja myrt Þótt hefð sé fyrir að miða upphaf kólumbísku borgarastyrjaldarinnar við miðjan sjöunda áratuginn, liggja rætur hennar mun dýpra. Árið 1928 fóru verkamenn á bananaplantekrum United Fruit-auðhringsins í verkfall. Bandaríkjastjórn leit á aðgerðir þeirra sem kommúníska valdaránstilraun og setti kólumbískum stjórnvöldum afarkosti: annað hvort myndu þau sjálf brjóta verkfallið á bak aftur eða bandarískir hermenn tækju það að sér. Stjórnin í Bogotá lét ekki segja sér það tvisvar. Herinn var látinn skjóta á verkfallsmenn og margir létu lífið. Fjöldamorðin höfðu mikil áhrif á ungan lögfræðing, Jorge Gaitán að nafni. Gaitán var vaxandi stjórnmálamaður í Frjálslynda flokknum og varð hann á skömmum tíma helsti talsmaður smábænda og landlausra íbúa Kólumbíu sem misst höfðu jarðnæði sitt til stórbænda og erlendra landbúnaðarfyrirtækja. Deilan um ræktarlandið varð stóra málið í kólumbískum stjórnmálum. Gaitán og hugsjónasystkini hans hófu baráttu fyrir endurskiptingu á ræktarlandi á kostnað landeigendaaðalsins. Minnti baráttan í þessu efni um margt á öflugar popúlískar hreyfingar þessara ára í Rómönsku Ameríku, svo sem Perónista í Argentínu. Líkt og í tilviki Peróns, byggðu vinsældir Gaitáns að verulegu leyti á ræðusnilld hans og persónutöfrum. Gaitán var valinn forsetaefni Frjálslynda flokksins árið 1947 og var talinn eiga vísan sigur í kosningunum árið eftir. Áður en til þess kom var Gaitán skotinn til bana. Enginn veit nákvæmlega hvað morðingjanum gekk til, því áður en lögreglu gafst færi á að yfirheyra hann náði æstur múgur í ódæðismanninn og drap hann með höggum og spörkum. Hafa atburðirnir upp frá því verið uppspretta endalausra tilgátna um hvað legið hafi að baki. Allt frá því að um verk sturlaðs einstaklings væri að ræða yfir í samsæriskenningar sem gera ráð fyrir aðild pólitískra andstæðinga, CIA, sovéskra stjórnvalda eða kólumbískra kommúnista. Þeir síðastnefndu litu á Gaitán sem sérstakan andstæðing sinn því hann hafnaði vopnaðri byltingu en talaði fyrir því að vinstri menn næðu völdum í kosningum. Hver svo sem stóð á bak við morðið, létu afleiðingarnar ekki á sér standa. Við tók tíu ára tímabil sem kallað hefur verið „óöldin“ (La Violencia), þar sem vopnaðar fylkingar Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins börðust á banaspjót. Mannfall varð gríðarlegt á báða bóga og fræjum ofbeldis var sáð til langrar framtíðar. Utan Kólumbíu hafði morðið á Gaitán ekki síður mikil áhrif, því það sannfærði marga íbúa Rómönsku Ameríku um að róttækum vinstri öflum yrði ekki leyft að komast til valda í kosningum. Þannig mun Kúbverjinn Fídel Kastró hafa sannfærst um nauðsyn vopnaðrar byltingar vegna morðsins.Stríð og friður Óöldinni lauk árið 1958, í það minnsta í bili. Þá náðu hinar stríðandi fylkingar saman um myndun þjóðstjórnar. Stjórnin var þó gjörspillt frá fyrsta degi, enda var límið í henni það eitt að báðir stjórnarflokkarnir gátu notað völdin til að maka krókinn og hjálpa flokksgæðingum að auðgast. Á sjöunda áratugnum freistaði ríkisstjórnin þess að umbylta landbúnaðinum og ýta undir stórframleiðslubú með útflutning í huga. Fjöldi smábænda var hrakinn frá býlum sínum og þeirra beið hlutskipti fátækra landbúnaðarverkamanna eða snauðra íbúa stórborganna. Með tímanum myndaðist jarðvegur fyrir nýja borgarastyrjöld, að þessu sinni milli hægrisinnaðrar valdastéttar og vopnaðra hreyfinga sem játuðu ýmsar undirtegundir kommúnisma. Í mörgum tilvikum voru skæruliðasveitirnar viðbragð við dauðasveitum sem ríkir landeigendur komu upp til að standa vörð um eignir sínar og berja niður óróa meðal verkafólks. Sumar skæruliðahreyfingarnar höfðu stjórn á sínum eigin landsvæðum, ráku þar samfélög og skeyttu lítið um skipanir ríkistjórnarinnar. Árið 1964 reyndi stjórnarherinn að uppræta eitt þessara óopinberu sjálfstjórnarsvæða með stórfelldri árás sem naut dyggrar aðstoðar bandarísku leyniþjónustunnar. Ekki tókst þó að ganga milli bols og höfuðs á skæruliðunum sem endurskipulögðu sig í kjölfarið og til varð FARC-hreyfingin. Þótt FARC hafi í upphafi einungis talið fáeina tugi meðlima óx hún hratt. Tilraunir stjórnarhersins til að ráða niðurlögum skæruliðanna með loftárásum og stuðningi við dauðasveitir sem kostuðu fjölda óbreyttra borgara lífið voru einungis til þess fallnar að afla hreyfingunni nýrra liðsmanna. Skæruliðarnir, sem í fyrstu höfðu neitað að fjármagna sig með eiturlyfjasölu ákváðu að lokum að stökkva á kókaínlestina, en Kólumbía hefur löngum séð Bandaríkjamönnum fyrir drjúgum hluta eiturlyfja sinna. Á níunda áratugnum virtist ætla að rofa til í samskiptum skæruliða og stjórnarinnar. Komið var á vopnahléi árið 1984 og árið eftir stofnuðu FARC-liðar ásamt nokkrum öðrum hreyfingum róttækra vinstrimanna stjórnmálaflokk, Bandalag föðurlandsvina (Union Patriótica). Friðurinn var þó brothættur og ýmsir aðilar sem unnu að því að grafa undan honum. Eftir að ríkisstjórnin barði með hörku niður allsherjarverkfall á árinu 1985 og lýsti yfir neyðarlögum tóku ýmsar skæruliðahreyfingarnar upp vopn sín á ný. FARC hélt þó tryggð við vopnahléið lengst allra, en eftir því sem frambjóðendur Union Patriótica týndu tölunni af völdum dauðasveita og eiturlyfjahringa fór þolinmæði þeirra þverrandi. Í október 1987 var forsetaframbjóðandi flokksins úr röðum FARC skotinn til bana af fjórtán ára morðingja á vegum Medelin-eiturlyfjahringsins. Þar með var friðurinn endanlega úti og stríðið hófst á ný af endurnýjuðum krafti. Næsta aldarfjórðunginn reyndu stjórnvöld árangurslaust að sigra skæruliða, bæði með beinum eigin hernaðaraðgerðum en ekki síður með lítt duldum stuðningi við dauðasveitir hægrimanna sem fóru um með morðum og eyðileggingu. Allt kom fyrir ekki og þegar komið var fram á árið 2011 höfðu FARC-liðar um þriðjung landsins á valdi sínu. Á árinu 2012 sneri Manuel Santos forseti við blaðinu og hóf friðarviðræður við FARC. Slíkar viðræður höfðu ótal oft verið reyndar og jafnoft runnið út í sandinn, en Santos sagðist reiðubúinn að seilast lengra í von um að koma á lífvænlegum friði. Hann sigraði í forsetakosningum árið 2014 með minnsta mögulega mun (50,95% atkvæða) á grunni loforða um að ná friðarsamningum. Sú stefna virtist ætla að bera árangur í júní á þessu ári, þegar samningar náðust sem gerðu ráð fyrir að FARC legði niður vopn og yrði viðurkenndur aðili í stjórnmálalífi landsins. Fyrir það samkomulag fær Santos friðarverðlaunin nú. Illu heilli var samkomulagið fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu á dögunum með örlitlum mun. Athygli vekur að þau svæði sem orðið hafa mest fyrir barðinu á stríðinu studdu samkomulagið en íbúar friðsamari svæða felldu það. Því miður gefur staðan í landinu litla ástæðu til bjartsýni. Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið Kemur út úr skápnum tveimur árum eftir andlát sitt Lífið Enginn þreyir þorrann eins og Áslaug Arna Lífið Bellingham kominn með bandaríska kærustu Lífið Allt í einu orðin mamman sem missti barnið sitt Lífið Guinness-æðið sem gert hefur íslenska djammara að þjófum Lífið Sjónvarpsbarn komið í heiminn Lífið Ómerkilegir þættir um merkilega konu Gagnrýni Fann ástina og setur íbúðina á sölu Lífið Ætla að halda Lífskviðuna þrátt fyrir andlát Ásgeirs í nótt Menning Stærsta þorrablót landsins Lífið Fleiri fréttir Ætla að halda Lífskviðuna þrátt fyrir andlát Ásgeirs í nótt Katrín dustar rykið af visku sinni Anna Rós hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör Létu sig ekki vanta á frumsýningu Ungfrú Íslands Bókamarkaðurinn færir sig um set Troðfullt hús og standandi lófaklapp „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira
Marga fýsir að vita hvað um þá verður sagt eftir dauðann. Ýmsar sögur hafa jafnvel verið sagðar af fólki sem sviðsett hefur dauða sinn í því skyni að kanna viðbrögð eftirlifenda og mætinguna í útförina. Ekki er hægt að mæla með þeirri hegðun og ekki er gott ef niðurstaðan kemur óþægilega á óvart. Árið 1888 lést sænski verkfræðingurinn Lúðvík Nóbel á ferðalagi í Frakklandi. Hann var umsvifamikill í olíuiðnaði og lagði raunar grunninn að olíuiðnaði Rússa í Bakú í Aserbaídsjan, sem framleiddi um tíma helming allrar olíu sem unnin var í veröldinni. Franskur blaðamaður hljóp hins vegar illilega á sig þegar hann flutti fregnir af andlátinu og sló Lúðvík saman við bróður hans, Alfreð. Alfreð Nóbel var ekki síður vellríkur en bróðirinn. Hans auðlegð byggðist hins vegar á framleiðslu sprengiefnis og þá einkum dínamíti sem hann hlaut einkaleyfi á árið 1867. Sprengiefni kom vitaskuld að gagni við hvers kyns verklegar framkvæmdir, en það mátti einnig nota í öðrum tilgangi: til að skapa sífellt stærri og öflugri sprengjur. Franski blaðamaðurinn einblíndi á stríðsþáttinn og kallaði Nóbel því „sölumann dauðans“ í minningargreininni. Fréttin varð verulegt áfall fyrir Alfreð Nóbel og það sem eftir var ævinnar kappkostaði hann að tryggja sér betri eftirmæli. Í því skyni setti hann á stofn gríðaröflugan verðlaunasjóð sem veita skyldi viðurkenningar fyrir uppgötvanir á sviði helstu raunvísindagreina en einnig fyrir bókmenntir og störf að friðarmálum. Flest Nóbelsverðlaunanna eru veitt af sérstakri akademíu í Stokkhólmi. Friðarverðlaun Nóbels eru hins vegar á vegum norska stórþingsins. Þau verðlaun hafa í gegnum tíðina vakið hvað harðastar deilur. Ein ástæðan er sú að mörgum þykir dómnefndin teygja sig ansi langt í útnefningum sínum og fara þar á svig við stofnskrána sem setur mjög stíf skilyrði um að þeir einir komi til greina sem verðlaunahafar sem beinlínis hafi unnið að afvopnun eða stuðlað að friði í deilum ríkja eða þjóðernishópa. Þannig heimilar stofnskráin ekki að verðlaunin séu veitt almennum mannréttinda- eða náttúruverndarsamtökum, hversu verðug sem þau kunna annars að vera. Á sama hátt má það teljast hæpin ráðstöfun að veita Obama Bandaríkjaforseta verðlaunin í blábyrjun embættistíðar hans, að því er virðist í hvatningarskyni til að láta gott af sér leiða frekar en fyrir raunveruleg afrek. Friðarverðlaunahafi ársins 2016 fellur þó vel að skilyrðum stofnandans. Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu, hlaut þau fyrir þátt sinn í samkomulagi milli ríkisstjórnar sinnar og FARC-skæruliða. Því var ætlað að ljúka meira en hálfrar aldar langri borgarastyrjöld í landinu sem kostað hefur meira en 200 þúsund mannslíf.Alþýðuhetja myrt Þótt hefð sé fyrir að miða upphaf kólumbísku borgarastyrjaldarinnar við miðjan sjöunda áratuginn, liggja rætur hennar mun dýpra. Árið 1928 fóru verkamenn á bananaplantekrum United Fruit-auðhringsins í verkfall. Bandaríkjastjórn leit á aðgerðir þeirra sem kommúníska valdaránstilraun og setti kólumbískum stjórnvöldum afarkosti: annað hvort myndu þau sjálf brjóta verkfallið á bak aftur eða bandarískir hermenn tækju það að sér. Stjórnin í Bogotá lét ekki segja sér það tvisvar. Herinn var látinn skjóta á verkfallsmenn og margir létu lífið. Fjöldamorðin höfðu mikil áhrif á ungan lögfræðing, Jorge Gaitán að nafni. Gaitán var vaxandi stjórnmálamaður í Frjálslynda flokknum og varð hann á skömmum tíma helsti talsmaður smábænda og landlausra íbúa Kólumbíu sem misst höfðu jarðnæði sitt til stórbænda og erlendra landbúnaðarfyrirtækja. Deilan um ræktarlandið varð stóra málið í kólumbískum stjórnmálum. Gaitán og hugsjónasystkini hans hófu baráttu fyrir endurskiptingu á ræktarlandi á kostnað landeigendaaðalsins. Minnti baráttan í þessu efni um margt á öflugar popúlískar hreyfingar þessara ára í Rómönsku Ameríku, svo sem Perónista í Argentínu. Líkt og í tilviki Peróns, byggðu vinsældir Gaitáns að verulegu leyti á ræðusnilld hans og persónutöfrum. Gaitán var valinn forsetaefni Frjálslynda flokksins árið 1947 og var talinn eiga vísan sigur í kosningunum árið eftir. Áður en til þess kom var Gaitán skotinn til bana. Enginn veit nákvæmlega hvað morðingjanum gekk til, því áður en lögreglu gafst færi á að yfirheyra hann náði æstur múgur í ódæðismanninn og drap hann með höggum og spörkum. Hafa atburðirnir upp frá því verið uppspretta endalausra tilgátna um hvað legið hafi að baki. Allt frá því að um verk sturlaðs einstaklings væri að ræða yfir í samsæriskenningar sem gera ráð fyrir aðild pólitískra andstæðinga, CIA, sovéskra stjórnvalda eða kólumbískra kommúnista. Þeir síðastnefndu litu á Gaitán sem sérstakan andstæðing sinn því hann hafnaði vopnaðri byltingu en talaði fyrir því að vinstri menn næðu völdum í kosningum. Hver svo sem stóð á bak við morðið, létu afleiðingarnar ekki á sér standa. Við tók tíu ára tímabil sem kallað hefur verið „óöldin“ (La Violencia), þar sem vopnaðar fylkingar Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins börðust á banaspjót. Mannfall varð gríðarlegt á báða bóga og fræjum ofbeldis var sáð til langrar framtíðar. Utan Kólumbíu hafði morðið á Gaitán ekki síður mikil áhrif, því það sannfærði marga íbúa Rómönsku Ameríku um að róttækum vinstri öflum yrði ekki leyft að komast til valda í kosningum. Þannig mun Kúbverjinn Fídel Kastró hafa sannfærst um nauðsyn vopnaðrar byltingar vegna morðsins.Stríð og friður Óöldinni lauk árið 1958, í það minnsta í bili. Þá náðu hinar stríðandi fylkingar saman um myndun þjóðstjórnar. Stjórnin var þó gjörspillt frá fyrsta degi, enda var límið í henni það eitt að báðir stjórnarflokkarnir gátu notað völdin til að maka krókinn og hjálpa flokksgæðingum að auðgast. Á sjöunda áratugnum freistaði ríkisstjórnin þess að umbylta landbúnaðinum og ýta undir stórframleiðslubú með útflutning í huga. Fjöldi smábænda var hrakinn frá býlum sínum og þeirra beið hlutskipti fátækra landbúnaðarverkamanna eða snauðra íbúa stórborganna. Með tímanum myndaðist jarðvegur fyrir nýja borgarastyrjöld, að þessu sinni milli hægrisinnaðrar valdastéttar og vopnaðra hreyfinga sem játuðu ýmsar undirtegundir kommúnisma. Í mörgum tilvikum voru skæruliðasveitirnar viðbragð við dauðasveitum sem ríkir landeigendur komu upp til að standa vörð um eignir sínar og berja niður óróa meðal verkafólks. Sumar skæruliðahreyfingarnar höfðu stjórn á sínum eigin landsvæðum, ráku þar samfélög og skeyttu lítið um skipanir ríkistjórnarinnar. Árið 1964 reyndi stjórnarherinn að uppræta eitt þessara óopinberu sjálfstjórnarsvæða með stórfelldri árás sem naut dyggrar aðstoðar bandarísku leyniþjónustunnar. Ekki tókst þó að ganga milli bols og höfuðs á skæruliðunum sem endurskipulögðu sig í kjölfarið og til varð FARC-hreyfingin. Þótt FARC hafi í upphafi einungis talið fáeina tugi meðlima óx hún hratt. Tilraunir stjórnarhersins til að ráða niðurlögum skæruliðanna með loftárásum og stuðningi við dauðasveitir sem kostuðu fjölda óbreyttra borgara lífið voru einungis til þess fallnar að afla hreyfingunni nýrra liðsmanna. Skæruliðarnir, sem í fyrstu höfðu neitað að fjármagna sig með eiturlyfjasölu ákváðu að lokum að stökkva á kókaínlestina, en Kólumbía hefur löngum séð Bandaríkjamönnum fyrir drjúgum hluta eiturlyfja sinna. Á níunda áratugnum virtist ætla að rofa til í samskiptum skæruliða og stjórnarinnar. Komið var á vopnahléi árið 1984 og árið eftir stofnuðu FARC-liðar ásamt nokkrum öðrum hreyfingum róttækra vinstrimanna stjórnmálaflokk, Bandalag föðurlandsvina (Union Patriótica). Friðurinn var þó brothættur og ýmsir aðilar sem unnu að því að grafa undan honum. Eftir að ríkisstjórnin barði með hörku niður allsherjarverkfall á árinu 1985 og lýsti yfir neyðarlögum tóku ýmsar skæruliðahreyfingarnar upp vopn sín á ný. FARC hélt þó tryggð við vopnahléið lengst allra, en eftir því sem frambjóðendur Union Patriótica týndu tölunni af völdum dauðasveita og eiturlyfjahringa fór þolinmæði þeirra þverrandi. Í október 1987 var forsetaframbjóðandi flokksins úr röðum FARC skotinn til bana af fjórtán ára morðingja á vegum Medelin-eiturlyfjahringsins. Þar með var friðurinn endanlega úti og stríðið hófst á ný af endurnýjuðum krafti. Næsta aldarfjórðunginn reyndu stjórnvöld árangurslaust að sigra skæruliða, bæði með beinum eigin hernaðaraðgerðum en ekki síður með lítt duldum stuðningi við dauðasveitir hægrimanna sem fóru um með morðum og eyðileggingu. Allt kom fyrir ekki og þegar komið var fram á árið 2011 höfðu FARC-liðar um þriðjung landsins á valdi sínu. Á árinu 2012 sneri Manuel Santos forseti við blaðinu og hóf friðarviðræður við FARC. Slíkar viðræður höfðu ótal oft verið reyndar og jafnoft runnið út í sandinn, en Santos sagðist reiðubúinn að seilast lengra í von um að koma á lífvænlegum friði. Hann sigraði í forsetakosningum árið 2014 með minnsta mögulega mun (50,95% atkvæða) á grunni loforða um að ná friðarsamningum. Sú stefna virtist ætla að bera árangur í júní á þessu ári, þegar samningar náðust sem gerðu ráð fyrir að FARC legði niður vopn og yrði viðurkenndur aðili í stjórnmálalífi landsins. Fyrir það samkomulag fær Santos friðarverðlaunin nú. Illu heilli var samkomulagið fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu á dögunum með örlitlum mun. Athygli vekur að þau svæði sem orðið hafa mest fyrir barðinu á stríðinu studdu samkomulagið en íbúar friðsamari svæða felldu það. Því miður gefur staðan í landinu litla ástæðu til bjartsýni.
Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið Kemur út úr skápnum tveimur árum eftir andlát sitt Lífið Enginn þreyir þorrann eins og Áslaug Arna Lífið Bellingham kominn með bandaríska kærustu Lífið Allt í einu orðin mamman sem missti barnið sitt Lífið Guinness-æðið sem gert hefur íslenska djammara að þjófum Lífið Sjónvarpsbarn komið í heiminn Lífið Ómerkilegir þættir um merkilega konu Gagnrýni Fann ástina og setur íbúðina á sölu Lífið Ætla að halda Lífskviðuna þrátt fyrir andlát Ásgeirs í nótt Menning Stærsta þorrablót landsins Lífið Fleiri fréttir Ætla að halda Lífskviðuna þrátt fyrir andlát Ásgeirs í nótt Katrín dustar rykið af visku sinni Anna Rós hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör Létu sig ekki vanta á frumsýningu Ungfrú Íslands Bókamarkaðurinn færir sig um set Troðfullt hús og standandi lófaklapp „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira