Kvennalið Snæfells í körfubolta vann sér inn nafnbótina sem meistari meistaranna þriðja árið í röð með 70-60 sigri á Grindavík í Meistarakeppni KKÍ en leikurinn fór fram í DHL-höllinni í dag. Snæfellskonur urðu ennfremur meistarar meistaranna í fjórða sinn á fimm árum.
Er um árlegan leik að ræða sem fer fram á milli ríkjandi Íslandsmeistara og ríkjandi bikarmeistara.
Grindavík byrjaði leikinn betur og leiddi 13-11 að fyrsta leikhluta loknum en Snæfell náði að snúa leiknum sér í hag og leiddi 37-32 í hálfleik.
Snæfellskonur stýrðu umferðinni í þriðja leikhluta og náðu fjórtán stiga forskoti fyrir lokaleikhlutann 59-45.
Sigurinn var ekki í hættu í fjórða leikhluta þótt Grindvíkingum tækist aðeins að saxa á muninn en leiknum lauk með tíu stiga sigri Snæfells.
Taylor Brown var stigahæst í liði Snæfells með 29 stig en í liði Grindavíkur var það Ashley Grimes með 21 stig ásamt því að taka 11 fráköst.

