Körfubolti

Byrjuðu báðar þjálfaraferilinn sinn á því að vinna reynslumikla karlþjálfara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hildur Sigurðardóttir og Heiðrún Kristmundsdóttir.
Hildur Sigurðardóttir og Heiðrún Kristmundsdóttir. Vísir/Stefán
Hildur Sigurðardóttir og Heiðrún Kristmundsdóttir eru báðar á sínu fyrsta tímabili sem þjálfarar í meistaraflokki í körfubolta en þær tóku við liðum í 1. deildinni fyrir þetta tímabil.

Hildur og Heiðrún byrjuðu báðar þjálfaraferilinn sinn vel um helgina og fögnuðu báðar sigri í spennuleik. Þær fengu samt eldskírn í fyrsta leik þar sem þær mættu báðar miklum reynslubolta.

Benedikt Guðmundsson og Sverrir Þór Sverrisson eru báðir í hópi þeirra þjálfara sem hafa gert bæði karla- og kvennalið að Íslandsmeisturum en urðu að sætta sig við tap á móti nýliðunum um helgina.

Það hefur verið alltof lítið um það að konur hafi verið að þjálfar meistaraflokkana í körfuboltanum og margir fagna því að sjá tvær konur taka slaginn í vetur.

Hildur Sigurðardóttir og Heiðrún Kristmundsdóttir léku á sínum tíma saman hjá KR-liðinu og urðu meðal annars Íslandsmeistarar saman vorið 2010. Benedikt Guðmundsson var einmitt þjálfari KR-liðsins þann vetur.

Hildur Sigurðardóttir og stelpurnar hennar í Breiðabliki unnu 64-62 sigur á Þór Akureyri í Smáranum en Benedikt Guðmundsson þjálfar kvennalið Þórs eins og í fyrra.

Telma Lind Ásgeirsdóttir reyndist þjálfara sínum betri en enginn og skoraði 24 stig fyrir Breiðabliksliðið. Eyrún Ósk Alfreðsdóttir skoraði 13 stig og þær Inga Sif Sigfúsdóttir og Sóllilja Bjarnadóttir voru báðar með 10 stig. Fanney Lind G. Thomas var með 21 stig fyrir Þór og Unnur Lára Ásgeirsdóttir bætti við 11 stigum og 11 fráköstum.

Heiðrún Kristmundsdóttir og stelpurnar hennar í KR unnu síðan sigur 70-66 á Keflavík í Vesturbænum en Sverrir Þór Sverrisson þjálfar meistaraflokk Keflavíkur en a-lið félagsins spilar í Dominos-deildinni en b-liðið í 1. deildinni.

Perla  Jóhannsdóttir skoraði 24 stig fyrir KR-liðið, Ásta Júlía Grímsdóttir var með 12 stig og 16 fráköst og Rannveig Ólafsdóttir skoraði 10 stig. Þóranna Kika Hodge-Carr var með 17 stig, 17 fráköst og 6 stoðsendingar í liði Keflavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×