Vitsmunaleg heilsurækt Þórlindur Kjartansson skrifar 7. október 2016 07:00 Um miðjan áttunda áratuginn kom móðurbróðir minn í heimsókn til Vestmannaeyja og var yfir jólin. Þótt hann hafi ekki verið lengi þá varð hann á örskömmum tíma býsna þekktur og umtalaður í bænum vegna háttalags sem þótti býsna furðulegt. Þessi frændi minn var þá námsmaður í Bandaríkjunum og hafði tekið upp ýmsa siði sem enn þóttu framandi hér á landi. Það sem olli helst heilabrotum var sá vani hans að klæða sig upp í íþróttaföt í öllum veðrum og hlaupa svo stefnulaust þvers og kruss um Eyjuna; að því er virtist í algjöru tilgangsleysi. Eftir að frændi minn var aftur horfinn af eyjunni, fór að bera á því að fólk kæmi að máli við móður mína til þess að spyrja varfærnislega út í þennan furðulega og framandi gest. Hún reyndi afsakandi að útskýra fyrir áhyggjufullum bæjarbúum að það væri allt í lagi með bróður hennar og algjörlega óþarft að hafa áhyggjur af andlegri eða líkamlegri heilsu hans. Það sem fólkið hafði orðið vitni að var hegðun sem væri umliðin með velþóknun vestan hafs í Bandaríkjunum. Þar stundaði ósköp venjulegt fólk á öllum aldri svokallað „trimm“ sér til hressingar og heilsubótar.Hraustir líkamar Fljótlega fór þessi iðja að sækja í sig veðrið og ólíklegasta fólk var farið að trimma, jogga, skokka og jafnvel hlaupa. Nokkrum árum síðar varð til í Vestmannaeyjum allsérstakur klúbbur. Bankastjórinn, útgerðarmaðurinn og presturinn hittust á laugardagsmorgnum og skokkuðu nokkra kílómetra. Hlaupahópurinn gekk undir nafninu „Vorum skuldunautum“ og mætti segja að þar með hafi verið tekin af öll tvímæli um að það væri samfélagslega ásættanlegt að fullvaxnir karlmenn létu sjá sig á hlaupum úti á götum. Nú til dags þykir það algjörlega sjálfsagt að fólk stundi einhvers konar hreyfingu og fátt fær fleiri læk á Facebook en myndir af rauðþrútnu, sveittu og sigurbrosandi fólki við lok erfiðs hlaups, fjallgöngu eða lóðalyftinga.Heilbrigðar sálir Á allra síðustu árum hefur umfjöllun um andlega heilsu líka komist í tísku. Það að hafa leitað aðstoðar sálfræðinga eða geðlækna felur ekki lengur í sér ósigur fyrir geðrænum kvillum og veikindum—heldur fyrstu skrefin til þess að sigrast á þeim. Það virðist vera minna feimnismál en áður að játa að tilveran sé flókin og stundum erfið. Fólk stundar því kinnroðalaust alls konar jóga, núvitund og hugleiðslu og segir óhikað frá sálarstríði sínu án þess að eiga nokkuð á hættu að vera álitið furðulegt eða fáránlegt.Vannærðir heilar Rétt eins og líkami okkar mótast af því hvernig við nærum hann og hreyfum, og sálin mótast af tilfinningum okkar og hugsunum—þá mótast afstaða okkar til heimsins af því hvaða viðfangsefni og afþreyingu við bjóðum heilanum upp á. Rannsóknir hafa til að mynda sýnt fram á að þegar fólk les vandaðar bókmenntir þá eykst geta þess til að setja sig í spor annarra. Líklegt er að það sama eigi við þegar fólk upplifir listir og menningu þar sem fjallað er um hin fínni blæbrigði tilverunnar. Þetta skiptir ekki svo litlu máli, því sá eiginleiki að setja sig í spor annarra er máttugasta móteitrið gegn fordómum, mannfyrirlitningu og ofbeldi. Velgengni pólitískra dólga á borð við Donald Trump byggist einmitt á algjöru skeytingarleysi um náungann. Í málflutningi hans er ekki að finna agnarögn af samkennd eða skilningi en þeim mun stærri skammta af hræðslu, tortryggni, fordómum, heimtufrekju og yfirgangi. Ef fólk er vannært af vitsmunalegri hollustu á slíkur málflutningur greiðari leið heldur en ella.Vitsmunalegt erfiði Rétt eins og það er erfitt að fara út að hlaupa í staðinn fyrir að sitja heima, erfiðara að útbúa hollan mat heldur en að seðja sig með skyndibita, fyrirhafnarmeira að koma ró á hugann heldur en að leyfa volæði, væli og vonleysi að ná tökum á sér—þá finnst mér að minnsta kosti miklu erfiðara að lesa krefjandi bókmenntir heldur en að leyfa bara Netflix að matreiða ofan í mig hverja amerísku raunveruleikasjónvarpsseríuna á fætur annarri. Og svo virðist sem vitsmunaleg þjálfun sé ekki höfð í miklum hávegum. Jafnvel í umfjöllun um menntakerfið heyrist oft sú skoðun að hlutverk skólagöngunnar sé að undirbúa fólk á sem hagkvæmastan hátt undir þátttöku í atvinnulífinu; en minna er sagt um þá skyldu skólakerfisins að undirbúa manneskjur til þess að taka þátt í samfélaginu og verða að sjálfstætt hugsandi einstaklingum. Því miður er ekki beinlínis í tísku að hreykja sér sérstaklega af því að leggja á sig erfiði til þess að bæta einhverju nýtilegu við heilabúið. Hversu mörg læk ætli maður fengi fyrir að segjast á Facebook ætla að lesa Glæp og refsingu, eða Útlendinginn? Ég hef á tilfinningunni að sá sem auglýsti slík plön myndi teljast álíka furðulegur eins og frændi minn forðum—og í ofanálag ömurlegt montprik og merkikerti. Kannski breytist þetta ef stórhættulegum mönnum eins og Donald Trump tekst að plata sig til valda. Þá munum við upplifa afleiðingarnar af því að verða svo vitsmunalega veikluð að sjá ekki fyrir þær þjáningar sem slík dusilmenni geta kallað yfir sínar eigin þjóðir og heiminn allan. Vonandi kemur ekki til þess að við þurfum að mæta slíkum afleiðingum. Kannski dugir hið háværa viðvörunarhljóð sem nú glymur um víðan heim og eftir nokkur ár þyki það jafnsjálfsagt að fólk hreyki sér opinberlega af því að vera duglegt við að lesa fögur ljóð og berjast í gegnum þykkar bækur, eins og að hamast í líkamsræktinni með lóð og komast í ennþá þrengri brækur.Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Donald Trump Forsetakosningar í Bandaríkjunum Þórlindur Kjartansson Mest lesið Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun Skilaboð hátíðarinnar Skúli S. Ólafsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun
Um miðjan áttunda áratuginn kom móðurbróðir minn í heimsókn til Vestmannaeyja og var yfir jólin. Þótt hann hafi ekki verið lengi þá varð hann á örskömmum tíma býsna þekktur og umtalaður í bænum vegna háttalags sem þótti býsna furðulegt. Þessi frændi minn var þá námsmaður í Bandaríkjunum og hafði tekið upp ýmsa siði sem enn þóttu framandi hér á landi. Það sem olli helst heilabrotum var sá vani hans að klæða sig upp í íþróttaföt í öllum veðrum og hlaupa svo stefnulaust þvers og kruss um Eyjuna; að því er virtist í algjöru tilgangsleysi. Eftir að frændi minn var aftur horfinn af eyjunni, fór að bera á því að fólk kæmi að máli við móður mína til þess að spyrja varfærnislega út í þennan furðulega og framandi gest. Hún reyndi afsakandi að útskýra fyrir áhyggjufullum bæjarbúum að það væri allt í lagi með bróður hennar og algjörlega óþarft að hafa áhyggjur af andlegri eða líkamlegri heilsu hans. Það sem fólkið hafði orðið vitni að var hegðun sem væri umliðin með velþóknun vestan hafs í Bandaríkjunum. Þar stundaði ósköp venjulegt fólk á öllum aldri svokallað „trimm“ sér til hressingar og heilsubótar.Hraustir líkamar Fljótlega fór þessi iðja að sækja í sig veðrið og ólíklegasta fólk var farið að trimma, jogga, skokka og jafnvel hlaupa. Nokkrum árum síðar varð til í Vestmannaeyjum allsérstakur klúbbur. Bankastjórinn, útgerðarmaðurinn og presturinn hittust á laugardagsmorgnum og skokkuðu nokkra kílómetra. Hlaupahópurinn gekk undir nafninu „Vorum skuldunautum“ og mætti segja að þar með hafi verið tekin af öll tvímæli um að það væri samfélagslega ásættanlegt að fullvaxnir karlmenn létu sjá sig á hlaupum úti á götum. Nú til dags þykir það algjörlega sjálfsagt að fólk stundi einhvers konar hreyfingu og fátt fær fleiri læk á Facebook en myndir af rauðþrútnu, sveittu og sigurbrosandi fólki við lok erfiðs hlaups, fjallgöngu eða lóðalyftinga.Heilbrigðar sálir Á allra síðustu árum hefur umfjöllun um andlega heilsu líka komist í tísku. Það að hafa leitað aðstoðar sálfræðinga eða geðlækna felur ekki lengur í sér ósigur fyrir geðrænum kvillum og veikindum—heldur fyrstu skrefin til þess að sigrast á þeim. Það virðist vera minna feimnismál en áður að játa að tilveran sé flókin og stundum erfið. Fólk stundar því kinnroðalaust alls konar jóga, núvitund og hugleiðslu og segir óhikað frá sálarstríði sínu án þess að eiga nokkuð á hættu að vera álitið furðulegt eða fáránlegt.Vannærðir heilar Rétt eins og líkami okkar mótast af því hvernig við nærum hann og hreyfum, og sálin mótast af tilfinningum okkar og hugsunum—þá mótast afstaða okkar til heimsins af því hvaða viðfangsefni og afþreyingu við bjóðum heilanum upp á. Rannsóknir hafa til að mynda sýnt fram á að þegar fólk les vandaðar bókmenntir þá eykst geta þess til að setja sig í spor annarra. Líklegt er að það sama eigi við þegar fólk upplifir listir og menningu þar sem fjallað er um hin fínni blæbrigði tilverunnar. Þetta skiptir ekki svo litlu máli, því sá eiginleiki að setja sig í spor annarra er máttugasta móteitrið gegn fordómum, mannfyrirlitningu og ofbeldi. Velgengni pólitískra dólga á borð við Donald Trump byggist einmitt á algjöru skeytingarleysi um náungann. Í málflutningi hans er ekki að finna agnarögn af samkennd eða skilningi en þeim mun stærri skammta af hræðslu, tortryggni, fordómum, heimtufrekju og yfirgangi. Ef fólk er vannært af vitsmunalegri hollustu á slíkur málflutningur greiðari leið heldur en ella.Vitsmunalegt erfiði Rétt eins og það er erfitt að fara út að hlaupa í staðinn fyrir að sitja heima, erfiðara að útbúa hollan mat heldur en að seðja sig með skyndibita, fyrirhafnarmeira að koma ró á hugann heldur en að leyfa volæði, væli og vonleysi að ná tökum á sér—þá finnst mér að minnsta kosti miklu erfiðara að lesa krefjandi bókmenntir heldur en að leyfa bara Netflix að matreiða ofan í mig hverja amerísku raunveruleikasjónvarpsseríuna á fætur annarri. Og svo virðist sem vitsmunaleg þjálfun sé ekki höfð í miklum hávegum. Jafnvel í umfjöllun um menntakerfið heyrist oft sú skoðun að hlutverk skólagöngunnar sé að undirbúa fólk á sem hagkvæmastan hátt undir þátttöku í atvinnulífinu; en minna er sagt um þá skyldu skólakerfisins að undirbúa manneskjur til þess að taka þátt í samfélaginu og verða að sjálfstætt hugsandi einstaklingum. Því miður er ekki beinlínis í tísku að hreykja sér sérstaklega af því að leggja á sig erfiði til þess að bæta einhverju nýtilegu við heilabúið. Hversu mörg læk ætli maður fengi fyrir að segjast á Facebook ætla að lesa Glæp og refsingu, eða Útlendinginn? Ég hef á tilfinningunni að sá sem auglýsti slík plön myndi teljast álíka furðulegur eins og frændi minn forðum—og í ofanálag ömurlegt montprik og merkikerti. Kannski breytist þetta ef stórhættulegum mönnum eins og Donald Trump tekst að plata sig til valda. Þá munum við upplifa afleiðingarnar af því að verða svo vitsmunalega veikluð að sjá ekki fyrir þær þjáningar sem slík dusilmenni geta kallað yfir sínar eigin þjóðir og heiminn allan. Vonandi kemur ekki til þess að við þurfum að mæta slíkum afleiðingum. Kannski dugir hið háværa viðvörunarhljóð sem nú glymur um víðan heim og eftir nokkur ár þyki það jafnsjálfsagt að fólk hreyki sér opinberlega af því að vera duglegt við að lesa fögur ljóð og berjast í gegnum þykkar bækur, eins og að hamast í líkamsræktinni með lóð og komast í ennþá þrengri brækur.Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun