Leikið var í sænsku úrvalsdeild kvenna í fótbolta í dag og voru íslenskar landsliðskonur í stórum hlutverkum í tveimur leikjum.
Guðbjörg Gunnarsdóttir hélt marki sínu hreinu þegar lið hennar Djurgården gerði markalaust jafntefli á útivelli við Umeå.
Djurgården er í 6. sæti með 26 stig en Umeå er í 11. sæti, fallsæti, með 11 stig.
Glódis Perla Viggósdóttir lék allan leikinn í vörn Eskilstuna sem gerði 2-2 jafntefli við Piteå á heimavelli.
Piteå komst í 2-0 en Eskilstuna jafnaði metin fyrir hálfleik. Ekkert var skorað í seinni hálfleik.
Eskilstuna er í fjórða sæti með 32 stig en Piteå er með stigi meira í þriðja sæti.
