Tölvuleikjafyrirtækið EA Sports hafði samband við Geir Þorsteinsson, formann KSÍ, um viðræður um að íslenska landsliðið yrði með í næstu útgáfu af tölvuleiknum vinsæla FIFA 18.
Þetta staðfestir Geir í samtali við Vísi en mbl.is greindi frá því að viðræður væru hafnar á milli KSÍ og EA Sports um þáttöku Íslands í næsta leik.
„Ég fékk tölvuskeyti fyrr í dag frá EA Sports og í dag höfum við átt samtal um að hefja viðræður um möglega þáttöku Íslands í næstu útgáfu leiksins,“ segir Geir. „Ég lagði einnig áherslu á það að íslenska kvennalandsliðið yrði með í leiknum.“
Ákvörðun um KSÍ að taka ekki boði EA Sports um að vera með í FIFA 17, sem kemur út á næstunni, vakti mikla athygli og reiði á meðal sumra. Sagði Geir í kjölfarið að fyrirtækið hefði boðið of lága upphæð að mati KSÍ.
Í samtali við Vísi segir Geir að búið sé að opna á vingjarnleg samskipti við fyrirtækið og að viðræðurnar muni standa yfir á næstu mánuðum. Tilboð EA Sports um þáttöku landsliðsins í FIFA 17 nam um 1,7 milljónum en aðspurður um peninga segir Geir það ekki liggja fyrir en málið snúist ekki um fjármagnið.
„Þetta mun ekki hafa stórkostlegan áhrif á okkar rekstur en þetta snýst um það að við viljum að komið sé fram við okkur á faglegan og heiðarlegan hátt,“ segir Geir.
