„Ég styð enn þá Sigmund Davíð eins og ég hef stutt hann alla tíð og hef bara herst í þeirri afstöðu eftir vendingar helgarinnar. Það sem ég á við með því er að Eygló og Sigurður Ingi hafa unnið að því í sameiningu að grafa undan formanni flokksins og ætla sér að komast til valda í flokknum,“ segir Gunnar Bragi. „Átökin eru augljós en ef við kjósum sterka forystu með Sigmund Davíð og Lilju Alfreðsdóttur þá tel ég okkur geta náð góðum árangri í kosningunum í lok október og komist í ríkisstjórn.“

Oddvitarnir í Suðurkjördæmi og Norðausturkjördæmi stefna báðir á formannssætið en hinir fjórir skiptast jafnt á milli þeirra. Því eru átakalínurnar nokkuð augljósar í flokknum. Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, segir flokkinn augljóslega klofinn í afstöðu sinni. „Þetta virðist vera farið að skýrast nokkuð mikið. Þó flokkurinn sé alls ekki klofinn í afstöðu til málefna þá er klofningur innan flokksins um það hver eigi að stjórna honum í nánustu framtíð,“ segir Grétar Þór.
Gunnar Bragi segir Sigmund Davíð líklegan til að geta komið flokknum í ríkisstjórn og blæs á þær vangaveltur að fáir vilji vinna með honum. „Þegar í kosningar og svo stjórnarmyndunarviðræður er komið velta menn því ekki fyrir sér og láta það ekki hafa áhrif á sig. Sigmundur hefur sýnt það að hann getur unnið stórsigra og er vel til þess fallinn að leiða flokkinn.“
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu