Tottenham Hotspur náði í sín fyrstu stig í E-riðli þegar liðið lagði CSKA að velli í Moskvu, 0-1. Son Heung-Min skoraði eina mark leiksins en Suður-Kóreumaðurinn hefur verið heitur að undanförnu.
Cristiano Ronaldo skoraði sitt 98. mark í Meistaradeildinni þegar Real Madrid gerði 2-2 jafntefli við Borussia Dortmund á útivelli í F-riðli. Real Madrid er ósigrað í síðustu 23 leikjum sínum í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
Leicester City er með fullt hús stiga í G-riðli eftir 1-0 sigur á Porto. Alsíringarnir í liði Leicester áttu heiðurinn að markinu. Riyad Mahrez sendi fyrir á Islam Slimani sem skallaði boltann í netið á 25. mínútu.
Juventus átti svo ekki í neinum vandræðum með að vinna Dinamo Zagreb í H-riðli. Lokatölur 0-4, ítölsku meisturunum í vil.
Mörkin úr umræddum fjórum leikjum má sjá hér að neðan.
Annarri umferð riðlakeppninnar lýkur með átta leikjum í kvöld. Fjórir þeirra verða sýndir í beinni útsendingu á Sportstöðvum Stöðvar 2. Þá verður Meistaradeildarmessan á dagskrá á Stöð 2 Sport HD, en þar verður fylgst með öllum átta leikjum kvöldsins samtímis.
Dagskrá kvöldsins í Meistaradeildinni:
18:15 Meistaradeildarmessan - Stöð 2 Sport
18:40 Arsenal - Basel - Stöð 2 Sport 2
18:40 Celtic - Man City - Stöð 2 Sport 3
18:40 Atlético Madrid - Bayern München - Stöð 2 Sport 4
18:40 Borussia Mönchengladbach - Barcelona - Stöð 2 Sport 5
20:45 Meistaradeildarmörkin - Stöð 2 Sport