Mikil ólga er nú meðal Framsóknarmanna eftir að Guðni Ágústsson upplýsti í viðtali við Vísi að hann teldi ekki heppilegt að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson leiddi flokkinn í næstu kosningum. Þessi orð hans hafa fallið í grýttan jarðveg víða meðal Framsóknarmanna.
Sjálfskipaðir boðberar sannleikans
Guðfinna lætur Guðna heyra það á Facebooksíðu sinni:
„Mikið rosalega fer í taugarnar á mèr þegar einhverjir sjálfskipaðir boðberar sannleikans telja sig yfir okkur flokksmenn hafða og vilja einir ákveða og segja okkur hinum hver á að vera formaður flokksins. Vinsamlegast virðið skoðanir flokksmanna og leyfið okkur flokksmönnum að ákveða formanninn.“

Og helst er á einörðum stuðningsmönnum Framsóknarflokksins að skilja að Guðni sé að skemmta skrattanum með því að gefa í skyn að Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og varaformaður flokksins sé heppilegri leiðtogi. Kristinn Snævarr Jónsson tjáir sig á Fb-síðu Guðfinnu og segir:
„Já, flokksþingið er til þess. Þar eiga framboðsræður frambjóðenda og stuðningsmanna þeirra heima en ekki í fjölmiðlum frammi fyrir hlakkandi flokksandstæðingum.“
Borgarfulltrúar einarðir í stuðningi við Sigmund
Orð Guðna staðfesta vitaskuld það að djúpstæður ágreiningur er um Sigmund Davíð innan Framsóknarflokksins. Hvernig raðast í hólf í þeirri fjárréttinni liggur hins vegar ekki fyrir.
Svo virðist sem Sigmundur Davíð hafi náð að heilla flokksmenn á miðstjórnarfundinum með ræðu sinni.

Enginn núlifandi stjórnmálamaður hefur slíka framtíðarsýn
Það sem svo er enn til að grugga vatnið og flækja mál er að Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, hefur ávallt verið einörð í stuðningi sínum við Sigmund Davíð. Hún hafði hástemmd orð um ræðu hans á miðstjórnarfundinum, rétt eins og Sveinbjörg: „Ræða Sigmundar Davíðs á miðstjórnarfundinum var mögnuð - enginn núlifandi stjórnmálamaður hefur slíka heildar- og framtíðarsýn fyrir land og þjóð.“
Vigdís hefur ávallt verið talin skjólstæðingur Guðna í stjórnmálum, enda mágkona hans. Það er svo enn til að flækja málin að Sigmundur sjálfur sagði, í viðtali við Bylgjuna, Reykjavík síðdegis, að Sigurður Ingi hafi lofað að notfæra sér ekki þessa stöðu og fara gegn sér í formannsslag. Sigurður Ingi hefur ætíð sagt það, en það hlýtur að vera til marks um að honum hafi snúist hugur þegar hann sagði óvænt á þessum umrædda miðstjórnarfundi að hann myndi ekki bjóða sig fram til varaformanns við óbreytta stöðu.
Fyrrum aðstoðarmaður Guðna, Sveinbjörn Eyjólfsson, forstöðumaður á Hvanneyri, segir hins vegar að traust og trúnaður á Sigmundi Davíð sé horfinn og ef Sigurður Ingi fari ekki fram ætli Sveinbjörn sjálfur að gera svo. Athyglisvert er að Guðni lýsir ekki yfir stuðningi við Sveinbjörn, sem bendir til þess að þau öfl innan Framsóknarflokksins sem vilja Sigmund Davíð burt, beina sjónum sínum að Sigurði Inga – að hann taki slaginn. Þrjár vikur eru til Flokksþings og þar munu þessi mál ráðast.