Aalesund komst upp úr fallsæti norsku úrvalsdeildarinnar með 4-2 sigri á Strömsgodset á heimavelli í dag.
Aron Elís Þrándarson og Adam Örn Arnarson voru báðir í byrjunarliði Aalesund og léku allan leikinn. Sá síðarnefndi fékk á sig vítaspyrnu í upphafi seinni hálfleiks en Andreas Lie, markvörður Aalesund, varði frá Kristoffer Tokstad.
Daníel Leó Grétarsson kom inn á sem varamaður á 64. mínútu í liði Aalesund sem hefur nú unnið tvo leiki í röð.
Malmö missteig sig í toppbaráttunni í Svíþjóð er liðið tapaði 3-1 fyrir Djurgården á útivelli.
Kári Árnason lék allan leikinn í vörn Malmö. Liðið er í 2. sæti deildarinnar með 48 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Norrköping.
Hjörtur Hermannsson stóð vaktina í vörn Bröndby sem beið lægri hlut, 1-2, fyrir Viborg í dönsku úrvalsdeildinni.
Í sömu deild kom Kjartan Henry Finnbogason inn á sem varamaður þegar Horsens tapaði 0-2 fyrir FC Köbenhavn á heimavelli.
