Tvö prófkjör Sjálfstæðisflokksins fóru fram um helgina. Í sameiginlegu prófkjöri fyrir Reykjavíkurkjördæmin tvö lentu Ólöf Nordal og Guðlaugur Þór Þórðarson í efstu tveimur sætunum og í Norðvesturkjördæmi bar þingmaðurinn Haraldur Benediktsson sigur úr býtum. Athygli vekur að þátttaka í báðum prófkjörum dregst mjög saman frá fyrri árum. 1.516 greiddu atkvæði í Norðvestur, samanborið við rúmlega 2.700 fyrir þingkosningarnar 2009, og í Reykjavík kusu 3.430. Þetta er versta kjörsókn í prófkjöri flokksins í Reykjavík frá upphafi. Til samanburðar kusu ríflega tvöfalt fleiri í prófkjöri flokksins í nóvember 2012.

Grétar telur að minnkandi stjórnmálaáhugi fólks í bland við minnkandi traust á stjórnmálamönnum hafi þessar afleiðingar. Hann telur ósennilegt að tímasetningin prófkjöranna og kosninganna hafi áhrif í þessu samhengi. „Það er mögulegt að tilkoma Viðreisnar hafi haft sitt að segja en ég tel ekki að hún skýri allt saman.“
Líkt og áður segir varð Ólöf Nordal, varaformaður flokksins, efst í prófkjörinu en hún hlaut 61 prósent atkvæða í fyrsta sætið. Það er tíu prósentustigum minna en Hanna Birna Kristjánsdóttir hlaut í prófkjörinu 2012 en örlítið meira en Illugi Gunnarsson árið 2009. „Það kemur ekki á óvart að Guðlaugur Þór klípi nokkur prósent af fyrsta sætinu. Sem stendur á Sjálfstæðisflokkurinn engan afgerandi leiðtoga í borginni og sextíu prósent því í raun ásættanlegt,“ segir Grétar Þór.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu