Thomas Müller segir að Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Bayern München, sé í nánari tengslum við leikmenn liðsins en forveri hans í starfi, Pep Guardiola.
„Ancelotti er nánari leikmönnunum. Guardiola var svolítið í eigin heimi,“ sagði Müller um Spánverjann sem hann lýsir sem miklum fullkomnunarsinna.
„Hann var alltaf að hugsa um hvernig hann gæti fært leikmenn um 2-3 metra í ákveðnum stöðum á vellinum til að finna hina fullkomnu lausn. Þetta var brjálæði í jákvæðum skilningi.“
Guardiola vann þýska meistaratitlinn í þrígang með Bayern en tókst ekki að vinna Meistaradeild Evrópu með þýska stórliðinu. Í sumar færði Guardiola sig um set til Manchester City og hinn reynslumikli Ancelotti tók við starfi hans hjá Bayern.
Bayern tekur á móti Werder Bremen í upphafsleik þýsku úrvalsdeildarinnar í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 18:30 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.
