Heimsmeistarinn Lewis Hamilton fær 30 sæta refsingu eftir að hafa tekið í notkun tvær nýjar vélar fyrir kappaksturinn. Mercedes liðið ákvað að taka tvöfaldan skell í einu í stað þess að taka út refsingu í tveimur eða fleiri keppnum.
Sjá einnig:Hamilton færður aftur um 30 sæti á ráslínu.
Rosberg var fljótastur á fyrri æfingunni. Hamilton varð annar og Kimi Raikkonen varð þriðji á Ferrari og fjórði varð Sergio Perez á Force India.
Esteban Ocon tókst vel til í frumraun sinni á Manor bílnum. Hann varð 16. og rúmlega sekúndu á undan hinum mikilsmetna liðsfélaga sínum Pascal Wehrlein.

Daniel Ricciardo á Red Bull varð annar en Nico Hulkenberg á Force India varð þriðji. Force India líkar greinilega vel við sig á Spa brautinni. Sebastian Vettel á Ferrari varð fjórði. Vettel var einkar pirraður á æfingunni og var mikið að kvarta yfir því að aðrir bílar, hægfara að hans mati væru að þvælast fyrir honum. Hann var þó að gera ansi mikið úr því að mati blaðamanns.
Bein útsending frá tímatökunni hefst klukkan 11:50 á morgun á Stöð 2 Sport 2. Bein útsending frá keppninni er svo klukkan 11:30 á sunnudag. Einnig á Stöð 2 Sport 2.
Hér að neðan má finna öll úrslit belgísku keppnishelgarinnar.