Innlent

Elín sækist eftir 2.-3. sæti

Atli Ísleifsson skrifar
Elín Hirst hefur setið á þingi frá árinu 2013.
Elín Hirst hefur setið á þingi frá árinu 2013.
Elín Hirst, þingkona Sjálfstæðisflokksins, sækist eftir 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi sem fram fer 10. september næstkomandi.

Elín hefur setið á þingi frá árinu 2013.

Í tilkynningu frá Elínu segir að hennar aðaláherslumál á Alþingi hafi verið heilbrigðismálin, sem hún telji að eigi að vera efst á forgangslista stjórnvalda.

„Kerfið er fjárvana og kostnaðarþátttaka sjúklinga er of mikil. Okkur ber að veita þeim sem eru sjúkir og aldraðir bestu umönnun, lífsgæði og þjónustu sem völ er á. Framlög til heilbrigðismála hafa þegar verið aukin verulega og endurbygging Landspítalans við Hringbraut er hafin. En betur má ef duga skal og heilbrigðismálin verða einmitt forgangsmál Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum. Skilyrðið fyrir því að við getum haldið áfram á þessari braut er áframhaldandi stöðugleiki í efnahagsmálum, þar sem ríkissjóður er rekinn hallalaus og skuldir greiddar niður til að minnka vaxtakostnað.

Á Alþingi hef ég á kjörtímabilinu jafnframt látið til mín taka hvað varðar aðhald í ríkisrekstri, lækkun skatta, aðgerðir gegn skattaundanskotum og heiðarleika í stjórnmálum almennt, fákeppni innan bankakerfisins og víðar, framtíð Reykjavíkurflugvallar, byggðamál, vestræna samvinnu og Atlantshafsbandalagið, umhverfismál, samgöngumál, réttindi barna og ungmenna, jafnréttismál, dýravelferð og margt fleira. Ég hef tekið þessi mál upp á Alþingi og barist fyrir þeim, ásamt því að skrifa fjölda greina í blöð og fyrir vefmiðla,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×