Ítalski kokkurinn Massimo Bottura fer fyrir hópnum en hann rekur m.a. veitingastaðinn Osteria Francescana í Modena á Ítalíu sem nýverið var valinn heimsins besti veitingastaður. Hann segir að markmið kokkanna sé að framreiða fimm þúsund veislumáltíðir á dag úr matvælum sem færu annars í ruslið eða er ekki hægt að nýta til þess að fæða hina átján þúsund þáttakendur á Ólympíuleikunum.
Fjallað er ítarlega um veitingastaðinn á vef Independent og þar kemur fram að kokkarnir taki meðal annars á móti afmynduðum ávöxtum og kartöflum sem annars eru í góðu lagi en eru ekki talin hæfa bestu íþróttamönnum heims. Segir í greininni að Bottura hafi lent í vandræðum strax fyrsta daginn því að í fyrstu sendingunni af matarafgöngum frá ólympíuþorpinu hafi leynst svo mikið af matvælum að ekki var pláss fyrir allt saman á veitingastaðnum.
„Við viljum að fólk labbi hér inn og segi „Vá, er þetta fyrir okkur“. Við viljum að þeir geti upplifað hvernig matur getur verið og við erum búin að upplifa það hér á hverjum degi,“ sagði Bottura í samtali við blaðamann Independent.
Líkt og sjá má á meðfylgjandi myndbandi er matreiðslan glæsileg og útkoman girnileg en Bottura og félagi hans, brasilíski kokkurinn David Hertz, gagnrýna skipulagsnefnd Ólympíuleikana og Alþjóðaólympíunefndina fyrir að hafa ekki viljað taka þátt í verkefninu.
„Það hafði enginn áhuga á þessu, það var ekkert,“ segir Hertz en það var ekki fyrr en rætt var sérstaklega við fyrirtækið sem sér um matreiðsluna í ólympíuþorpinu að hjólin fóru að snúast. Vonast þeir félagar til þess að framtakið verði til þess að vekja athygli á óþarfa matareyðslu. Markmiðið er að veitingastaðurinn geti svo staðið á eigin fótum eftir að Ólympíuleikunum lýkur.