Innlent

Regnbogafáni málaður á húsvegg í Strandgötu í Hafnarfirði

Atli Ísleifsson skrifar
Strandgata 4.
Strandgata 4. Mynd/Hafnarfjarðarbær
Regnbogafáni hefur verið málaður á vegg hússins við Strandgötu 4 í tilefni Hinsegin daga sem hófust í gær.

Í tilkynningu frá bæjarskrifstofunni segir að Hafnarfjarðarbær sé með þessu að fagna fjölbreytileikanum og koma upp minnisvarða um brautryðjendastarf Hafnarfjarðar í málefnum hinsegins fólks og áminningu um áframhaldandi baráttu fyrir fordómalausu samfélagi og jöfnum tækifærum fyrir alla.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Bersann – félag ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði.

Í tilkynningunni segir að Hafnarfjarðarbær hafi tekið virkan þátt í Gleðigöngu Hinsegin daga síðustu ár og muni í ár ganga undir slagorðinu: „Mannkynið er okkar kynþáttur. Ást er okkar trú.“

Um þrjátíu ungmenni á aldrinum fimmtán til 22 ára munu leiða framlag bæjarins til göngunnar og það undir stjórn Jafningjafræðslunnar Competo ásamt listahópi og skapandi sumarstörfum hjá Vinnuskóla Hafnarfjarðar.

Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, segir að bærinn hafi í fyrra rutt veginn með samningi við Samtökin ´78 um fræðslustarf sem hafi það að markmiði að auka þjónustu við nemendur og starfsfólk grunnskóla með fræðslu um málefni hinsegins fólks á grunni jafnréttis og sjálfsagðra mannréttinda.

„Fræðslan hefst í grunnskólum Hafnarfjarðar nú á haustmánuðum. Í Gleðigöngunni í ár ætlum við að fagna sýndum árangri og vekja fólk til umhugsunar með innihaldsríku slagorði sem færir boðskap sem allir geta tekið til sín og tileinkað sér,“ segir Haraldur.

Framlag Hafnarfjarðarbæjar er í höndum jafningjafræðslunnar Competo ásamt listahópi og skapandi sumarstörfum hjá Vinnuskóla Hafnarfjarðar. Hér má sjá hópinn með bæjarstjóra Hafnafjarðarbæjar, fræðslustjóra, íþrótta- og tómstundafulltrúa og forstöðumanni Vinnuskóla Hafnarfjarðar.Mynd/Hafnarfjarðarbær

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×