Skip Lækna án landamæra kom tveimur bátum til bjargar nærri ströndum Líbýu í Miðjarðarhafinu í dag. 209 var bjargað og þar af voru 50 börn. Í botni eins bátsins fundust hins vegar 22 lík á floti í vatni.
Samkvæmt frétt Reuters liggur ekki fyrir hvað gerðist en starfsmenn Lækna án landamæra, MSF, telja mögulegt að eldsneyti hafi blandast út í vatnið í kili bátsins og að gufurnar frá því hafi valdið því að fólkið missti meðvitund og dó.
Að mestu var fólkið frá löndum í vestur-Afríku, eins og Nígeríu og Gíneu. Þau verða flutt til Sikileyjar og munu koma til hafnar á föstudaginn.
Yfirvöld í Ítalíu segja að þeim hafi fjölgað verulega þessa vikuna sem reyna að komast til Evrópu frá Líbýu, vegna góðs veðurs. Í þessari viku hefur rúmlega þrjú þúsund manns verið komið til bjargar.
Gífurlega margir hafa látið lífið á þessari leið en farandfólkið er iðulega sett um borð í illa útbúin og útbúin skip og báta.
Það sem af er árinu hafa 79.861 komist til Ítalíu, en í fyrra var það 83.119. Nærri því þrjú þúsund manns hafa drukknað á árinu.
Fundu 22 lík á Miðjarðarhafi
Samúel Karl Ólason skrifar
