Liu Zhenmin, aðstoðarutanríkisráðherra Kína, sagði að úrskurður gerðardómstólsins hefði engin áhrif á fullveldi Kína yfir hafsvæðinu. Á blaðamannafundi í morgun sagði hann einnig að ef loftvarnarsvæði yrði komið upp þyrftu allar flugvélar sem færu um svæðið að tilkynna ferðina til yfirvalda í Kína áður.
„Ef öryggi okkar er ógnað, höfum við auðvitað réttinn til þess að koma því upp. Við vonumst til þess að aðrar þjóðir noti ekki tækifærið til að ógna Kína og vinni þess í stað með Kína til að standa vörð um frið og stöðugleika í Suður-Kínahafi, svo deilurnar endi ekki í átökum.“
Sjá einnig: Kína á ekki tilkall til eyjanna í Suður-Kínahafi
Liu sakaði Filippseyjar, sem höfðuð málið gegn Kína, um að valda deilum í Suður-Kínahafi. Hann sagði að það myndi borga sig fyrir yfirvöld þar að eiga í samstarfi við Kína.
Sex þjóðir gera tilkall til mismunandi hluta svæðisins. Rík fiskimið eru á svæðinu og talið er að þar sé einnig að finna auðlindir eins og olíu. Um fimm billjónir dala virði af vörum eru fluttar um Suður-Kínahaf á ári hverju. Það samsvarar um 610 billjónum króna.