Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, er langtekjuhæstur fjölmiðlamanna samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í dag. Samkvæmt tölum blaðsins er hann með um 3,6 milljónir króna í tekjur á mánuði en hann var einnig langtekjuhæstur í fyrra og var þá með rúmlega 3,3 milljónir króna í tekjur.
Næstur á eftir Davíð á listanum er samstarfsmaður hans hjá Morgunblaðinu Haraldur Johannessen sem einnig er ritstjóri blaðsins sem og framkvæmdastjóri Árvakurs, útgáfufélags blaðsins. Hann er með um 2,4 milljónir á mánuði samkvæmt tekjublaðinu.
Í þriðja sæti er Páll Magnússon þáttastjórnandi þáttarins Sprengisands á Bylgjunni með um 2,1 milljónir á mánuði. Hann er reyndar nýtekinn við stjórnartaumunum á Sprengisandi en var meðal annars með þætti á Hringbraut á liðnu ári.
Ragnhildur Sverrisdóttir kynningarfulltrúi Björgólfs Thors Björgólfssonar er tekjuhæsta konan í fjölmiðlabransanum samkvæmt Frjálsri verslun en hún er í fjórða sæti listans með tæpar tvær milljónir á mánuði.
Í fimmta sæti er svo Björn Ingi Hrafnsson útgefandi Vefpressunnar og DV með um 1,8 milljónir á mánuði. Jón Kristinn Laufdal Ásgeirsson auglýsingastjóri Fréttablaðsins kemur fast á hæla Björns Inga einnig með um 1,8 milljón á mánuði og þá er Ómar R. Valdimarsson fréttamaður Bloomberg með um 1,7 milljónir á mánuði.
Egill Helgason dagskrárgerðarmaður RÚV er hæstlaunaðasti starfsmaður ríkisfjölmiðilsins samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar með um 1,4 milljónir á mánuði. Fast á eftir honum kemur Kolbrún Bergþórsdóttir ritstjóri DV einnig með um 1,4 milljónir á mánuði og í 10. sæti er Eggert Skúlason fyrrverandi ritstjóri DV með um 1,2 milljónir á mánuði en hann lét af störfum fyrir um mánuði síðan.
Frjáls verslun gefur í dag út sitt árlega tekjublað og er blaðið í sölu í 13 daga. Þar eru birtar tekjur um þrjú þúsund einstaklinga víðs vegar af landinu. Þekkts fólks í þjóðlífinu, menn í atvinnulífi, listum og stjórnmálum.
Listi Frjálsrar verslunar er byggður á útsvarsskyldum tekjum á árinu 2015 og þurfa þær því ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Í einhverjum tilvikum kann skattstjóri að hafa áætlað tekjur.
