„Ég vil senda skýr skilaboð til allra Evrópumanna í Lundúnum, þið eruð mjög velkomnir hér. Sem borg erum við þakklát fyrir ykkar gríðarmikla framlag sem mun ekki breytast í ljósi atkvæðagreiðslunnar,“ segir Khan á Facebook-síðu sinni.
Khan segir að sú milljón Evrópumanna sem búi í Lundúnum leggi sitt af mörkum til samfélagsins, greiði sína skatta, vinni í almannaþágu og auðgi menningarlíf borgarbúa.
Bretar kusu í gær að yfirgefa ESB. Alls óvíst er hvað nú tekur við en væntanleg úrsögn Bretlands er fordæmalaus þar sem ekkert ríki hefur áður sagt sig úr ESB.