Avaldsnes skaust á topp norsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta með 6-0 stórsigri á Uraedd á heimavelli í dag.
Hólmfríður Magnúsdóttir og Þórunn Helga Jónsdóttir léku allan leikinn fyrir Avaldsnes sem er með 31 stig á toppnum.
Lilleström getur reyndar endurheimt toppsætið með sigri á Klepp í leik sem nú stendur yfir.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir tryggði Stabæk 1-0 sigur á Trondheims-Orn en hún skoraði eina mark leiksins á 67. mínútu.
Þetta var þriðja mark Gunnhildar í sumar en Garðbæingurinn er á sínu öðru tímabili hjá Stabæk.
Stabæk er í 3. sæti deildarinnar með 25 stig, sex stigum á eftir toppliði Avaldsnes.
