Arnar Bill Gunnarsson, Helgi Kolviðsson og Roland Andersson verða allir viðstaddir viðureign Frakklands og Írlands í sextán liða úrslitum EM í dag en leikurinn fer fram í Lyon klukkan 15 að staðartíma, klukkan 13 að íslenskum tíma.
Hinir þrír fyrrnefndu eru hluti af njósnateymi landsliðsins en þeirra hlutverk á EM hefur verið að fylgjast með andstæðingum Íslands og leikgreina þá. Freyr Alexandersson, þjálfari kvennalandsliðsins er sömuleiðis hluti af því teymi, en hann var viðstaddur viðureign Króata og Portúgala í Lens í gærkvöldi. Ísland er sem kunnugt er með Króatíu í riðli í undankeppni HM 2018.
Sigurvegarinn í viðureign Frakklands og Írlands mæta sigurvegaranum í viðureign Íslands og Englands á Stade de France í París 3. júlí sunnudaginn 3. júlí. Bæði Íslendingar og Frakkar eiga góðar minningar frá leikvanginum þar sem Ísland lagði Austurríki á miðvikudaginn.
Frakkar gjörþekka auðvitað leikvanginn sem var byggður fyrir HM 1998 en þar tryggði landsliðið sér heimsmeistaratitilinn sama ár.
