Veiðisvæðið kennt við Borg í Ytri Rangá er í miklum ham samfara hrikalegri veiði í Ytri enda fer allur laxinn fram hjá Borg á leið sinni upp ánna.
Það er leitun að lýsingarorðum sem ná utan um veiðitölurnar úr Rangánum þessa dagana en eins og við höfum greint frá þá veiddi opnunarhollið í Ytri Rangá 255 laxa sem er met sem við eigum erfitt með að trúa að verði nokkurn tímann slegið hér á landi. Öll svæðin eru inni og pökkuð af laxi. Neðra svæðið í Ytri Rangá er kennt við Borg og inní því eru veiðistaðir sem áður voru inní skiptingum á efra svæðinu, t.d. Straumey.
Veiði hófst í vikunni á Borg og opnunarhollið þar gerði feykna veiði eins og búist var við þegar ljósst var hversu mikill lax er kominn á svæðið og að krafturinn í göngunum er eins og á besta tíma. Samtals var 32 löxum landað og stórlaxahlutfallið feykna gott. Bestu staðirnir á svæðinu eru yfirleitt Straumey, Borg og með landinu þar sem moldarbakkinn byrjar við Borg en annars getur lax verið um allt þegar hann gengur meðfram landinu.
