Þar verður hún ásamt eiginmanni sínum, Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands, en þau hittu m.a. verðandi forsetahjón, Guðna Th. Jóhanesson og Elizu Reid í Nice, fyrr í dag. Fór afar vel á með þeim líkt og Vísir hefur greint frá.
Kolbeinn Tumi Daðason fréttamaður Vísis í Frakklandi náði tali af Dorrit þar sem hún var að ræða möguleika Íslands á sigri við nokkra góða stuðningsmenn íslenska landsliðsins. Dorrit er sigurviss og spáir Íslendingum sigri.
„Ég er mjög stolt af öllum Íslendingum og ég er viss um að við munum vinna í kvöld,“ sagði Dorrit. „Það er engin ástæða fyrir því af hverju við getum ekki unnið.“
Vitnaði Dorrit til einhverra ódauðlegustu orða sem mælt hafa verið á íslenskri tungu, eftir sigurleik handboltalandsliðs karla í undanúrslitum á Ólympíuleikunum í Kína árið 2008.
„Eins og ég var að segja í Kína. Ísland er stærsta land í heimi, ekki stórasta,“ sagði Dorrit hlæjandi að lokum.