Frakkland hafði betur gegn Rúmeníu, 2-1, í opnunarleik Evrópumótsins í fótbolta í kvöld en leikurinn fór fram á Stade de France í Saint-Denis.
Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Oliver Giroud Frökkum yfir með skallamarki á 57. mínútu. Hann stökk upp samhliða rúmenska markverðinum Tatarusanu og stangaði boltann í netið eftir sendingu frá Dmitri Payet.
Kannski hefði átt að dæma aukaspyrnu á Giroud sem fór með olnbogann í hendurnar á markverðinum áður en hann skallaði boltann í autt netið. Hann slapp með skrekkinn og Frakkar komnir í 1-0. Giroud hefur verið í miklum ham fyrir Frakka að undanförnu og skorað átta mörk í síðustu sex leikjum fyrir franska landsliðið.
Á 65. mínútu fengu Rúmenar vítaspyrnu þegar Patrice Evra braut klaufalega af sér í teignum. Bogdan Stancu fór á punktinn og skoraði örugglega framhjá Hugo Lloris í markinu.
Þegar allt stefndi í 1-1 jafntefli kom Dimitri Payet, leikmaður West Ham í ensku úrvalsdeildinni, gestgjöfunum til bjargar með algjörlega frábæru marki á 89. mínútu.
Payet fékk sendingu fyrir utan teiginn frá N'Golo Kante og þrumaði boltanum hnitmiðað með vinstri fæti í samskeytin fjær. Algjörlega óverjandi og gæti verið eitt af mörkum keppninnar. Lokatölur, 2-1, og Frakkarnir byrja á sigri.
Payet lagði upp fyrra markið, skoraði sigurmarkið og átti í heildina frábæran leik. Hann lagði upp átta færi fyrir félaga sína í leiknum en Giroud skoraði úr því sjötta sem hann lagði upp.
Payet bjargaði Frökkum með geggjuðu marki í opnunarleiknum
Tómas Þór Þórðarson skrifar

Mest lesið



„Ég trúi þessu varla“
Sport



United hættir að bjóða upp á frían hádegismat
Enski boltinn

Carragher kallaði Ferdinand trúð
Enski boltinn

Gylfi orðinn Víkingur
Íslenski boltinn

Þolinmæðin á Højlund nánast á þrotum
Enski boltinn
