Annar stuðningsmaður Norður-Íra lét lífið í gær er leikur Norður-Íra og Úkraínu fór fram á EM. Hinn 62 ára gamli Robert Rainey fékk hjartaáfall í stúkunni á leiknum og lést eins og Vísir greindi frá í morgun. Sjúkraliðar reyndu að blása lífi í hann á staðnum en höfðu ekki erindi sem erfiði.
Fjölskylda Rainey sagði að hann hefði látist við að gera það sem hann elskaði mest - að horfa á fótbolta. Síðasta mánudag lést 24 ára drengur frá Norður-Írlandi eftir fyrsta leik sinnar þjóðar á EM. Hann var á gangi snemma um morgun er hann féll niður á strönd og lést.
Norður-Írar voru með sorgarband í leiknum í gær honum til heiðurs og þeir verða væntanlega aftur með sorgarband í næsta leik til minningar um Rainey sem kallaður var Archie.
Norður-Írar lögðu Úkraínu 2-0 í gær og eru með þrjú stig eftir tvær umferðir. Þeir mæta Þjóðverjum í lokaumferð riðilsins og eiga svo sannarlega möguleika á að komast í sextán liða úrslitin.
