Stórmarkaðurinn Iceland ætlar að fara í herferð þar sem Bretar eru hvattir til að þessa að gera Ísland að öðru uppáhaldsliði sínu á Evrópumótinu.
Hugmyndin fæddist þegar menn á Twitter fóru að óska Íslandi til hamingju með því að komast á EM með því að nota merki Stórmarkaðarins.
„Allt í einu blasti þetta við. Í stað þess að styðja aðeins við okkar landslið af hverju ekki að styðja líka annað lið á mótinu. Tvöfalda ánægjuna," sagði Andy Thompson við The Drum netmiðilinn en Andy er yfirmaður samfélagsmiðla fyrirtækisins.
Iceland mun setja saman stutt myndbönd á samfélagsmiðla sína sem munu sýna frá æfingum íslenska liðsins.
„Íslendingar hafa sérstakan húmor sem höfðar til okkar og svo erum við líka með sama nafn. Fótboltaliðið hefur verið til í að vinna með okkur og allir klárir í að hafa gaman af þessu," sagði Thompson.
Það verður ekki bara á samfélagsmiðlunum sem baráttan fer fram því Iceland hefur einnig framleitt sérstaka trefla fyrir þá sem vilja styðja íslenska landsliðið á Evrópumótinu í Frakklandi.
Íslenska landsliðið er í riðli með Portúgal, Ungverjalandi og Austurríki og fyrsti leikur liðsins fer fram 14. júní næstkomandi.
Iceland (the supermarket) is sponsoring Iceland (the country) in #Euro2016 bid https://t.co/sVzHUbJ1r8 pic.twitter.com/y1ix8Y3lOF
— The Drum (@TheDrum) June 2, 2016