„Þetta var frábært, að enda þetta svona fyrir mót. Að fá þessa góðu tilfinningu í kroppinn,“ sagði Kolbeinn Sigþórsson sem skoraði fyrsta mark Ísland í kvöld gegn Liechtenstein.
Strákarnir okkar unnu öruggan 4-0 sigur á Liechteinstein í síðasta leik liðsins fyrir Evrópumótið en þeir halda til Frakklands á morgun.
„Þetta er frábær endir. Þú sérð hvernig þetta er, með Eið og Lars. Frábær stemning,“ sagði Kolbeinn en leikurinn var sá síðasti undir stjórn Lars Lagerbäck á íslenskri grundu. Var hann heiðraður í leikslok af áhorfendum og leikmönnum og áttu þeir Lars og Eiður Smári Guðjohnsen, sem kom inn á og skoraði, fallega stund að leik loknum.
Kolbeinn hefur glímt við meiðsli í hnénu en segist vera að verða betri. „Ég var stífur nú í endann en það er eðlilegt. Það var fínt að fá 80 mínútur. Ég fattaði það í byrjun að ég var svolítið ryðgaður en eftir því sem leið á leikinn var ég léttari á mér,“ sagði Kolbeinn.
Kolbeinn reiknar með því að geta byrjað leikinn gegn Portúgal eftir viku en taki þó áfram einn dag í einu. Hann ætli að sjá hvernig þessi leikur fari í sig en hann spilaði 80 mínútur í kvöld. Á morgun er brottför til Annecy. Kolbeini líður vel.
„Alveg frábærlega. Við höfum allir beðið eftir þessu allan okkar fótboltaferil,“ sagði Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn: Höfum allir beðið eftir þessu allan fótboltaferilinn

Tengdar fréttir

Lars: Líður alltaf eins og ég sé kominn heim þegar ég kem til Íslands
Lars Lagerbäck kvaddi íslensku þjóðina með 4-0 sigri í síðasta leik strákana okkar fyrir EM.

Umfjöllun, viðtöl, myndir og einkunnir: Ísland - Liechtenstein 4-0 | Flott kveðja hjá strákunum
Okkar menn unnu sannfærandi 4-0 sigur í kveðjuleik Lars Lagerbäck og þeim síðasta fyrir EM í Frakklandi.

Einkunnir Íslands: Birkir Már bestur í jöfnu liði Íslands
Íslenska karlalandsliðið lagði Liechtenstein 4-0 í Laugardalnum í kvöld.